Nýgróðursett stafafura í jarðunnu landi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Nýgróðursett stafafura í jarðunnu landi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Styrkir til náms í skógfræðilegum greinum eru í boði á vegum tveggja norrænna stofnana á sviði skógvísinda, skógasviðs norrænu erfðavísindastofnunarinnar NordGen og Norrænna skógrannsókna (SNS) sem er samstarfsvettvangur um skógrannsóknir undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar.

Stofnanirnar veita þessa styrki til að örva menntun og þekkingarmiðlun um framleiðslu á trjáplöntufræi og skógarplöntum, um aðferðir við endurnýjun skógar og trjákynbætur.

Verkefni sem sótt er um styrk fyrir verða að vera í norrænu samhengi og hafa sameiginlegan ávinning fyrir Norðurlöndin. Styrkir geta numið allt að 20.000 norskum krónum sem jafngildir um 275.000 íslenskum krónum.

Frekari upplýsingar um skilmála og hvernig standa skuli að umsóknum er að finna á vef skógasviðs NordGen, NordGen Skog.

Umsóknarfrestur er til 15. febrúar.

Svara við öðrum fyrirspurnum má leita hjá Inger Sundheim Fløistad á skrifstofu NordGen Skog:
forest@nordgen.org

Texti: Pétur Halldórsson