Stór hluti Mosfellsheiðarinnar er afar rýr og mikið rofinn á köflum að sögn Björns Traustasonar. Því…
Stór hluti Mosfellsheiðarinnar er afar rýr og mikið rofinn á köflum að sögn Björns Traustasonar. Því sé mikilvægt að stöðva rof og byggja upp land. Loftslagsskógurinn verður gróðursettur á tólf reitum á 6.500 hektara svæði á Mosfellsheiði. Wiki-mynd: Ingeborg Breitfeld

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er rætt við Björn Traustason, landfræðing hjá Skógræktinni og formann Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, um þau áform að rækta stórfellda skógrækt á Mosfellsheiði. Tilgangurinn er bæði að binda kolefni og að veita höfuðborgarsvæðinu skjól fyrir austanáttum. Áætlað er að gróðursetning hefjist eftir 3-4 ár.

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður ræðir við Björn og í upphafi umfjöllunarinnar kemur fram að helsti ávinningur þess að hefja stórfellda skógrækt á Mosfellsheiði, eins og nú er í undirbúningi, sé annars vegar kolefnisbinding og hins vegar að skapa byggð á höfuðborgarsvæðinu skjól fyrir austlægum áttum.

Í tilraunaskyni verður stafafura og íslenskt birki gróðursett í tólf tilraunareitum á svæðinu til þess að rannsaka lifun trjáplantna á heiðinni. Á grundvelli niðurstaðna tilraunarinnar verður svo skoðað hvort Mosfellsheiði sé fýsilegur kostur til skógræktar. Þannig er þess vænst að sjá megi áhrif hæðarmunar á hvernig plöntur spjara sig á þessum slóðum en einnig hvaða áhrif búfjárbeit kann að hafa á skógræktina. Plantað verður bæði innan og utan girðingar.

Umfjöllun Morgunblaðsins heldur áfram á þessa leið:

Land vantar til gróðursetningar

„Skógrækt á Mosfellsheiði gæti verið stórt og mikilvægt framlag Íslendinga til bindingar kolefnis í andrúmsloftinu. Við höfum því gjarnan talað um þetta sem loftslagsskóg,“segir Björn Traustason, landfræðingur hjá Skógræktinni á Mógilsá og formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Félagið kemur að þessu verkefni í gegnum Kolvið, sem að standa Skógræktarfélag Íslands og Landvernd í þeim tilgangi að vinna að bindingu kolefnis með nýskógrækt. Gangurinn er þá sá að fyrirtæki styrkja Kolvið um tilsvarandi upphæð og kostar að rækta skóg sem kolefnisjafnar starfsemi þeirra. Hafa allmargir samningar þess efnis verið gerðir að undanförnu milli Kolviðs og atvinnulífsins.

Svæðið sem nú er í skoðun að taka undir loftslagsskóg er um 6.500 ha, en það afmarkast af Nesjavallavegi í suðri og Þingvallvegi í norðri. Að vestan væri landamæralínan við efstu bæi í Mosfellsdal og í austri þar sem halla fer niður í Þingvallasveit. Vegna mikils vaxtar Kolviðar síðastliðin misseri, segir Björn, vantar land til gróðursetningar og myndi Mosfellsheiði skipta sköpum í því sambandi.

Mosfellsbær er eigandi að stórum hluta þess lands sem hér um ræðir sem auðveldar mjög framvindu málsins, enda eru forsvarsmenn bæjarfélagsins jákvæðir fyrir málinu, segir Björn Traustason. Fyrst er þó að koma skógræktinni fyrir á aðalskipulagi sveitarfélagsins eins og nú er unnið að. Þeirri vinnu á að ljúka árið 2022, eða um það leyti sem kjörtímabil sitjandi bæjarstjórnar rennur út.

„Stór hluti Mosfellsheiðarinnar er afar rýr og mikið rofinn á köflum. Því er mikilvægt að stöðva rof og byggja upp land. Kolefnisbindingin verður svo lögmálinu samkvæmt mest meðan skógurinn er í sem hröðustum vexti. Því viljum við setja þarna niður fljótsprottnar plöntur, svo sem stafafuru og íslenskt birki enda henta þær aðstæðum vel,“ segir Björn Traustason. Bætir við að allt verkefnið verði tekið með vísindalegri nálgun og kannað hvaða svæði eru best til gróðursetninga og hvaða tegundir gætu hentað. Einnig hvort sú sauðfjárbeit sem er á svæðinu skipti sköpum fyrir lifun og vöxt plantna á heiðinni.

15% af öllu ræktuðu skóglendi á Íslandi

„Stefnt er að því að gróðursetja heldur gisnar í heiðina en gert er í hefðbundinni skógrækt eða um 2.500-3.000 plöntur á hvern hektara. Gert er ráð fyrir að í þessa 6.500 hektara fari nærri 17 til 18 milljónir plantna sem er sama og nú er gróðursett á Íslandi á fimm árum. Í því samhengi getum við séð stærðirnar, en skógurinn á Mosfellsheiði yrði um 15% af öllu ræktuðu skóglendi á Íslandi sem er nú um 42.000 hektarar. Alls myndu trén á hverjum hektara binda að meðaltali fimm tonn af koltvísýringi á ári í 60 ár,“ segir Björn og enn fremur:

„Þá bindum við vonir við að hefja megi útplöntun á svæðinu eftir þrjú til fjögur ár héðan í frá. Að á mannsaldri verði þarna sprottinn upp myndarlegur skógur sem hefði mikil og góð áhrif á umhverfið; binda koltvísýring og breyta veðráttu með því að skapa skjól fyrir höfuðborgarsvæðið, með líku lagi og Heiðmerkurskógarnir hafa svo sannarlega gert.“

Umfjöllun Morgunblaðsins í heild með texta og myndum

Sett á vef: Pétur Halldórsson