Kampakátir sjálfboðaliðar leggja upp frá starfstöð Skógræktarinnar í Langadal með efnivið í tröppur …
Kampakátir sjálfboðaliðar leggja upp frá starfstöð Skógræktarinnar í Langadal með efnivið í tröppur í hlíðum Valahnúks. Ljósmynd: Anna Mariager/Trailteam.is

Sjálfboðaliðar dvelja allt að ellefu vikum á Þórsmörk á komandi sumri. Með því að lengja dvalartíma sjálfboðaliða hefur nú þegar tekist að fækka flugferðum vegna sjálfboðaliðanna. Að auki gróðursetja þeir tré í þjóðskógum Suðurlands til að stuðla að bindingu á móti losun vegna ferðalaga sinna.

Skömmu fyrir jól var auglýst eftir sjálfboðaliðum til starfa á vef Þórsmörk Trail Volunteers, trailteam.is. Umsóknarfrestur er til 31. janúar. Leitað er bæði að almennum sjálfboðaliðum til starfa í 5 eða 7 vikur og sjálfboðaliðum í forystusveit sem dvelja allt að ellefu vikur á landinu. Auk sjálfboðastarfanna fá þátttakendur tækifæri til að njóta útivistar og ferðalaga um Þórsmerkursvæðið og nágrenni þess.

Forystusveit sjálfboðaliða

Reyndir sjálfboðaliðar hafa kost á að komast í forystuteymi sjálfboðaliða á Þórsmörk og dvelja í 11 vikur á svæðinu. Ljósmynd: Anna Mariager/Trailteam.isSjálfboðaliðar sem veljast í forystusveitina vinna öll hefðbundin störf sjálfboðaliða við stígagerð og stígaviðald, lagfæringum á landi vegna vind og vatnsrofs eða álags vegna ferðamanna. Að auki gegna þeir forystuhlutverki í sjálfboðastarfinu, sjá um að skipuleggja tjaldgistingu, að matarbirgðir séu nægar, hjálpa til við verkstjórn og fleira. Forystusveitin vinnur líka að gróðursetningu trjáplantna í þjóðskógum Suðurlands, bæði til að leggja sitt af mörkum til útbreiðslu skóga á Íslandi en ekki síður til að stuðla að kolefnisbindingu á móti þeirri losun sem hlýst af ferðalögum sjálfboðaliðanna, flugferðum til og frá landinu og ferðalögum innanlands. Með því að lengja dvalartíma sjálfboðaliða á Þórsmerkursvæðinu hefur þegar tekist að fækka flugferðum vegna sjálfboðastarfsins.

Nánari upplýsingar um ellefu vikna sjálfboðaverkefnin er að finna á vefnum trailteam.is ásamt upplýsingum um hvernig sækja má um. Verkefni forystusveitarinnar henta þeim sem hafa reynslu af sjálfboðastörfum á Þórsmerkursvæðinu frá fyrri árum eða af svipuðum verkefnum annars staðar. Ellefu vikna verkefnin hefjast í maí- og júnímánuði.  Umsóknarfrestur er til 31. janúar.

11 vikna dvöl

Almennir sjálfboðaliðar

Fólk sem langar að vinna almenn sjálfboðastörf á Þórsmerkursvæðinu í sumar þarf ekki að hafa reynslu af stígagerð eða viðhaldi stígamannvirkja enda fá allir nýliðar góða þjálfun og kennslu í upphafi. Hins vegar er leitað að fólki sem hefur reynslu af fjallgöngum og útilegum í óbyggðum, hefur yndi af útivist og er tilbúið til að takast á við krefjandi verkefni og aðstæður. Fólk þarf að vera búið undir óblíð og óútreiknanleg veðraöflin á Íslandi með hlý og skjólgóð föt, sterk tjöld og annan búnað. Þá þurfa sjálfboðaliðar að vera hraustir á bæði sál og líkama enda mikið um langar gönguferðir og burð á efniviði og áhöldum.

Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð er að finna á vefnum og umsóknarfrestur er til 31. janúar. 

5 eða 7 vikna dvöl

Texti: Pétur Halldórsson