Leyningshólabirki er eitt af þeim birkikvæmum sem sett voru út í tilrauninni. Það vex lítið og mynda…
Leyningshólabirki er eitt af þeim birkikvæmum sem sett voru út í tilrauninni. Það vex lítið og myndar lítið fræ. Í tilrauninni virðist birki af Suðausturlandi hafa yfirburði í lifun, lífmassa, fræmyndun og ryðþoli. Minni munur er milli landshluta hvað varðar birkikembu en Bæjarstaðabirki og skyldir stofnar virðast vera þeir viðkvæmustu fyrir þeim skaðvaldi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Grein eftir Brynjar Skúlason og Brynju Hrafnkelsdóttur
Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

Ilmbjörk (Betula pubescens) er eina íslenska trjátegundin sem myndar samfelldan skóg. Hún er ein mest gróðursetta trjátegundin í skógrækt á Íslandi undanfarin ár. Mikilvægt er að efniviðurinn sé góður og valin séu þau kvæmi birkis sem henta á því svæði sem gróðursett er á. Þá er ljóst að kvæmi geta verið misvel móttækileg fyrir ýmsum skaðvöldum. Einnig getur verið munur á því hversu mikið meindýr sækja í viðkomandi kvæmi.

Formáli

Undirbúningur að erfðavistfræðirannsókn á íslensku birki hófst um 1995. Rannsóknastöðin á Mógilsá stóð fyrir söfnun á birkifræi af um 50 kvæmum, vítt og breitt um landið. Plöntur voru ræktaðar á Mógilsá og gróðursettar í 9 kvæmatilraunir sumarið 1998, einnig með mikla landfræðilega dreifingu. Rarik veitti styrk í tilraunina í tilefni af 50 ára afmæli sínu. Á meðfylgjandi korti má sjá uppruna kvæma í tilrauninni ásamt tilraunastöðum.

Tilraunirnar voru mældar árið 1999, 2001 og 2008. Aðalsteinn Sigurgeirsson og Sabrina Fischer gerðu grein fyrir helstu niðurstöðum á Fagráðstefnu skógræktar árið 2009. Árið 2020 þótti ástæða til að endurtaka mælingar, ekki síst til að meta áhrif nýrra skaðvalda á mismunandi kvæmi, mun á kolefnisbindingu og mun á fræframleiðslu. Af 8 tilraunareitum sem teljast nógu heillegir til að gefa upplýsingar var mælt á Hjaltastöðum, Fagurhólsmýri, Haukadalsheiði, í Varmadal og á Læk að hluta. Til stendur að mæla á Höfða, Reykjanesi, í Húsafelli og það sem út af stendur á Læk á árinu 2021. Hér fyrir neðan má sjá niðurstöður þessara úttekta 2020 fyrir Varmadal. Unnið verður úr gögnum fyrir tilraunina í heild þegar mælingum lýkur 2021 og niðurstöður birtar í kjölfarið.

Niðurstöður

Í Varmadal var meðallifun 65% en hún var mjög misjöfn hjá kvæmum, allt frá því að vera 0% (Laugvalladalur S-Múlasýslu og Laugaból Ísafjarðarsýslu) upp í 98% (Steinadalur, A-Skaftafellssýslu) (mynd 2).

Mynd 2. Meðallifun mismunandi birkikvæma í Varmadal 2020. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðaréttar línur sýna staðalskekkju.

Líkt og með lifun í Varmadal var töluverður munur á milli kvæma hvað varðar lífmassavöxt ofanjarðar. Af þeim kvæmum þar sem lifun var yfir 0% var meðallífmassi ofanjarðar frá 1,9 kg (Leyningshólar Eyjafjarðarsýslu) upp í 11,7 kg (Embla) (mynd 3). Lífmassi var hærri hjá flestum kvæmum sem eru upp runnin á Suðvestur- og Suðausturlandi samanborið við kvæmin frá Norðvestur- og Norðausturlandi (mynd 3).

Mynd 3. Meðallífmassi ofanjarðar á mismunandi birkikvæmum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Meðalfræframleiðsla var mjög misjöfn á milli birkikvæmanna í Varmadal. Líkt og með aðrar breytur í þessari rannsókn virðist vera landshlutabundinn kvæmamunur þar sem fræframleiðsla var mest hjá kvæmum sem eru uppruninn á Suðurausturlandi en minnst hjá kvæmum frá Norðausturlandi og Norðvesturlandi (mynd 4).

Mynd 4. Meðalfræmyndun á mismunandi birkikvæmum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Einnig var töluverður kvæmamunur á umfangi ryðsmits og komu þau kvæmi af Suðurausturlandi best út en kvæmi af Norðausturlandi verst hvað varðar smit (mynd 5).

Mynd 5. Umfang birkiryðs á birkikvæmunum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Þegar skemmdir af völdum birkikembu voru bornar saman á milli kvæma var aftur á móti ekki jafnskýr munur á milli landsvæða.

Mynd 6.  Birkikembuskemmdir á birkikvæmunum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Lokaorð

Ljóst er að mikill kvæmamunur er á lifun birkikvæmanna í Varmadal. Í stuttu máli virðist birkið af SA-landi hafa yfirburði í lifun, lífmassa, fræmyndun og ryðþoli. Birkið af SV-landi fylgir þar á eftir. Þol gagnvart birkikembu er ekki eins bundið við kvæmi frá ákveðnum landshlutum en þó virðist Bæjarstaðabirki og skyldir stofnar vera þeir viðkvæmustu fyrir birkikembu (mynd 6). Hér er um algjörlega nýjar upplýsingar að ræða og sýnir það mikilvægi þess að eiga kvæmatilraunir til að meta ófyrirséð umhverfisáhrif á ólík kvæmi á einum stað.

Ársrit Skógræktarinnar 2020