Valdimar Reynisson hátt uppi í stafafurutré að tína köngla. Ljósmynd: Sæmundur Þorvaldsson
Valdimar Reynisson hátt uppi í stafafurutré að tína köngla. Ljósmynd: Sæmundur Þorvaldsson

Starfsfólk Skógræktarinnar á Hvanneyri nýtti góða veðrið í byrjun vikunnar til að safna fræi til ræktunar gæðaefniviðar til skógræktar fyrir komandi ár. Haldið var í Daníelslund við Svignaskarð þar sem vex falleg stafafura. Vel safnaðist af furufræi.

Talsvert magn safnaðist af stafafurukönglum sem gefið geta af sér tugþúsundir plantna í ræktun ef að líkum lætur. Í hópnum voru skógræktarráðgjafarnir Valdimar Reynisson, Hraundís Guðmundsdóttir og Ellert Arnar Marísson ásamt Sæmundi Þorvaldssyni sem tók meðfylgjandi myndir. Á efri myndinni er Valdimar kominn hátt upp í tré og alsæll í sínu náttúrlega umhverfi.

Valdimar, Hraundís og Ellert Arnar hamast við könglatínsluna í haustblíðunni í Daníelslundi. Ljósmynd: Sæmundur ÞorvaldssonDaníelslundur er rétt neðan við Svignaskarð og hefur verið gerður aðgengilegur fyrir gesti og gangandi. Skógurinn er rétt við þjóðveginn og því tilvalinn áningarstaður fyrir ferðafólk. Lagðir hafa verið stígar um Daníelslund sem kenndur er við Daníel Kristjánsson. Hann var um langt árabil driffjöður í Skógræktarfélagi Borgarfjarðar. Það var hins vegar bróðir hans, Ingimundur í Skarði, sem fyrstur gróðursetti tré á þessum stað. Bræðurnir voru frá Hreðavatni og auk starfa fyrir félag Borgfirðinga þjónaði Daníel líka sem skógarvörður Skógræktarinnar á Vesturlandi í 37 ár, frá 1941-1978.

Skipulögð gróðursetning í Daníelslundi hófst fyrir hartnær 60 árum og þar stendur nú myndarleg fura og greni ásamt fleiri tegundum. Daníelslundur hefur áður gefið fræ til ræktunar á stafafuru í gróðrarstöðvum, sérstaklega snemma árs 2016 þegar fura var grisjuð og tækifærið notað til að tína köngla af greinum fallinna trjáa. Sömuleiðis hefur lundurinn gefið myndarlega timburboli í talsverðu magni og hvort tveggja má sjá í tveimur eldri fréttum hér á skogur.is:

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild og myndir: Sæmundur Þorvaldsson