Prestur í Folkekirken í Danmörku býr sig undir að gróðursetja efnilega eik á danskri kirkjujörð og l…
Prestur í Folkekirken í Danmörku býr sig undir að gróðursetja efnilega eik á danskri kirkjujörð og leggur þannig sitt af mörkum til að kolefnisspor Folkekirken geti lækkað um 70% fram til 2030 eins og stefnt er að.

Danska kirkjan Folkekirken hyggst draga úr kolefnisspori sínu um 70 prósent áður en áratugurinn er úti. Þetta á meðal annars að gera með því að breyta ræktarlandi á kirkjujörðum í villta náttúru og kirkjuskóga. Íslenska þjóðkirkjan leitar einnig leiða til að nýta kirkjujarðir í þágu loftslagsmála, meðal annars í samstarfi við Skógræktina.

 

Folkekirken er þriðji stærsti landeigandi Danmerkur og í umsjá hennar eru alls um 11.000 hektarar lands. Í nýrri færslu á Instagram-reikningi Folkekirken segir að ef maður á jörð sé það besta sem maður geti gert fyrir loftslagið að rækta skóg. Þess vegna séu margar kirkjusóknir komnar á fulla ferð við að gróðursetja til kirkjuskógar á landi í sinni eigu sem áður hafi verið leigt út til landbúnaðar. Tilefni færslunnar er  dagur jarðar hjá Sameinuðu þjóðunum sem er í dag.

 

Í Skálholti er þegar hafin vinna við landbætur í þágu loftslagsins, meðal annars með skógrækt. Ljósmynd af kirkjan.isUm allan heim huga trúfélög nú að því hvert framlag þeirra getur verið til baráttunnar gegn röskun loftslags á jörðinni. Þar á meðal er íslenska Þjóðkirkjan sem á jarðir um allt land sem eru í mismunandi mikilli notkun til landbúnaðar. Mjög hefur dregið úr því að prestar á kirkjujörðum stundi búskap auk þess sem víða hafa margar sóknir verið sameinaðar og mun færri kirkjujarðir því setnar prestum en áður var. Þjóðkirkjan tekur þátt í samstarfi samtaka, sem hafa trúarlegan og eða samfélagslegan bakgrunn, að markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og árið 2019 var haldin ráðstefna í Skálholti með fulltrúum trúarhópa víða að úr heiminum þar sem loftslagsmálin komu mjög við sögu. Á vef Þjóðkirkjunnar má lesa um umhverfisstarf hennar undir merkinu Græn kirkja.

 

Skálholt er ein þeirra jarða þar sem Þjóðkirkjan vill ráðast í loftslagsverkefni með því að breyta framræstu landi aftur í votlendi og efla land með skógrækt og öðrum aðgerðum. Í samvinnu við Skógræktina eru nú nokkrar aðrar kirkjujarðir til skoðunar og mögulega verður innan tíðar hægt að greina frá skógræktarverkefnum sem ráðist verður í þar.

Texti: Pétur Halldórsson