Félagar í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík ferma bíla sína með iðjagrænum jólatrjám úr Þjórsárdals…
Félagar í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík ferma bíla sína með iðjagrænum jólatrjám úr Þjórsárdalsskógi. Trén verða seld á jólatrjáamarkaði sveitarinnar við Flugvallarveg í Reykjavík. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson

Flugbjörgunasveitin í Reykjavík sótti um helgina jólatré í Þjórsárdalsskóg fyrir jólatrjáasölu sína sem fram fer í húsakynnum sveitarinnar við Flugvallarveg í Reykjavík. Metaðsókn var að jólamarkaði Skógræktarinnar í Vaglaskógi á laugardaginn var og gestir sem komu í Haukadalsskóg til að sækja sér jólatré fóru líka glaðir heim. Um næstu helgi verður árlegi markaðurinn Jólakötturinn á Héraði og fólk getur komið og fellt eigið jólatré í Selskógi Skorradal og Haukadalsskógi.

Glaðir og sælir flugbjörgunarsveitarmenn stilltu sér upp þegar jólatrjánum hafði verið hlaðið á bílana. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson Jóhannes Hlynur Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, sendi meðfylgjandi myndir úr Þjórsárdalnum frá því þegar félagar í Flugbjörgunarsveitinni sóttu þangað iðjagræn og falleg jólatrén í blíðuveðri og jólasjó. Í Haukadal var opið bæði laugardag og sunnudag fyrir fólk sem vildi koma og finna sér jólatré í skóginum, höggva sjálft og þiggja ketilkaffi. Þó nokkurt rennirí var af fólki, segir Trausti Jóhannsson skógarvörður og fólk sótti sér trén víða um skóginn í góða veðrinu. Opið verður aftur í Haukadalsskógi um næstu helgi, 14. og 15. desember frá klukkan 11 til 15.

Logandi kyndill í Vaglaskógi, gerður af drumbi úr skóginum. Ljósmynd: Benjamín Örn DavíðssonMetaðsókn var að jólamarkaði Skógræktarinnar sem fram fór í Vaglaskógi laugardaginn 7. desember. Rúnar Ísleifsson skógarvörður áætlar að um 400 manns hafi komið á markaðinn í góðu veðri en köldu. Þetta var í sjötta sinn sem markaðurinn var haldinn og var ýmiss konar varningur til sölu, einkum frá þingeysku handverksfólki auk jólatrjáa og greina úr skóginum, arinviðar, platta og fleiri skógarafurða.

Sunnudaginn 15. desember verður hægt að fara í Selskóg Skorradal og finna sér jólatré í skóginum. Þar verður opið frá klukkan 11 til 16 eins og á sunnudaginn var þegar skógargestir fóru glaðir heim með ilmandi jólatré og ketilkaffi eða kakó í maganum. Þar komu m.a. nokkrir stórir hópar til að huga að jólatrjám, segir Jón Auðunn Bogason skógarvörður. Þá komu líka tvær fjölskyldur með vinningsmiða úr kvenfélagsbingói sem höfðu aldrei komið áður í skóginn til að sækja sér jólatré. Þannig spyrst út hversu gaman er að finna jólatréð sitt á eigin spýtur.

Jón Auðunn segir að yfirleitt sé heldur meiri sala á jólatrjám seinni daginn sem opið er í Selskógi þannig að búast má við góðri stemmningu á sunnudaginn kemur.  Skógarbændur séu líka farnir að bjóða fólkið a koma til sín og finna jólatré, til dæmis á Oddsstöðum í Lundarreykjadal og líka skógræktarfélögin, þar á meðal Skógræktarfélag Borgarfjarðar. Af þeim sem koma í Selskóg segir Jón Auðunn að sumarbústaðaeigendur í nágrenninu séu stór hluti. Þar eiga margar stórar fjölskyldur sem komið hafa árum saman í skóginn og þykir vænt um þann sið. Sumir hafi jafnvel verið búnir að sigta út draumatréð um sumarið og komi svo í desember til að vitja um það.

Ástæða er til að hvetja fólk til að nýta sér skóga um allt land til útivistar og upplyftingar, ekki síst í svartasta skammdeginu. Það er alltaf skjól í skóginum, alltaf grænn litur á barrtrjánum og alltaf eru einhverjir staðfuglar á flögri sem gleðja augu og eyru skógargesta.

Texti: Pétur Halldórsson