Hreinn Óskarsson í myndarlegum furuskógi sem gefur ríkulega af fallegum jólatrjám í ár. Ljósmynd: Tr…
Hreinn Óskarsson í myndarlegum furuskógi sem gefur ríkulega af fallegum jólatrjám í ár. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson

Vel hefur gengið að fella þau jólatré sem sótt eru í þjóðskógana fyrir komandi jólahátíð. Vel hefur verið fært um skógana í snjóleysinu sem verið hefur fram undir þetta. Þótt alltaf sé gróðursett eitt­hvað til jólatrjáa er framboðið takmarkað í þjóðskógunum, ekki síst á Norðurlandi. Áhugi er fyrir því að gróðursetja meira af fjallaþin en framboð hans úr gróðrarstöðvum er lítið. Opið verður í Sel­skógi og Haukadalsskógi fyrir fólk sem vill sækja sér tré sjálft og jólamarkaðir verða í Vaglaskógi og á Valgerðarstöðum í Fellum.

Skogur.is spurði skógarverðina út í ástand og horfur í jólatrjáamálum og það sem væri á döfinni fyrir jólin. Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, segir að útlitið í jólatrjáasölunni sé nokkuð gott. Á starf­svæði hans sé nóg af jólatrjám til að anna eftirspurn, helst að skortur sé á stafafuru.

Á Hallormsstað hefur verið unnið að því að undanförnu að fella birkiskerm yfir blágreni og síðan tekur við grisjun á greniskógi. Samhliða þessu hefur verið unnið að viðarvinnslu og jólatrjáahöggi. Í ár segir Þór Þor­finnsson skógarvörður að seld verði álíka mörg jólatré og í fyrra. Nokkru fleiri tré verði þó send norður í land en fyrir síðustu jól. Hann segir að vel sé hægt að anna fyrirsjáanlegri eftirspurn en ekki væri hægt að auka söluna umtalsvert ef eftirspurnin ykist. Rauðgreni hafi reyndar farið illa víða í skóginum vegna greni­lúsar árið 2016 og það takmarki framboðið á þeirri tegund. Annars séu jólatrén sem felld eru eystra aðallega stafafura og lítillega sé tekið af fjallaþin.

Barrfellisveppur virðist herja á blágreni í nokkrum mæli í Haukadal. Ljósmynd: Trausti JóhannssonÍ sunnlensku skógunum er nóg til af trjám, segir Trausti Jóhannsson skógarvörður, sérstaklega af stafafuru. Seld eru tré til Flugbjörgunar­sveit­ar­inn­ar í Reykjavík, Blómavals og fleiri. Nýlega fóru þeir Hreinn Óskarsson í Haukadal og felldu tals­vert af fallegri furu sem prýða mun stofur fólks um jólin. Trausti segir að nokkuð beri á skemmdum á blágreni í Haukadal, líklega af völdum barrfellisvepps.

Torgtré

Jólatrjáahöggi lauk að mestu fyrir mánaðamótin í þjóðskógunum og síðustu daga hafa torgtré verið flutt úr skógunum til kaupenda sem eru aðallega sveitarfélög og stærri fyrirtæki og stofnanir. Aðeins örfá torgtré eru tekin úr þjóðskógunum á Norðurlandi enda eru aðrir skógræktendur farnir að útvega slík tré, skógræktarfélög og jafnvel skógarbændur. Af Vesturlandi hafa verið afgreidd um 60 torgtré og að auki voru send átta tré á stærðarbilinu 1-3 metrar í Bláa lónið. Eystra verða torgtrén tæplega 20 talsins, tré yfir þriggja metra hæð, þau hæstu 8-9 metrar. Salan á torgtrjám úr sunnlensku skógunum er um 35 tré þetta árið.

Opnir skógar til jólatrjáahöggs

Á tveimur stöðum í þjóðskógunum verður haft opið fyrir fólk sem vill koma og sækja sér eigið jólatré. Tvær helgar verður opið í Haukadalsskógi, 8.-9. og 15.-16. desember kl. 11-15. Þar verður einnig hægt að kaupa arinvið, greinar, tröpputré og e.t.v. eitthvað fleira. Í Selskógi Skorradal verður hins vegar opið helgina 15.-16. desember kl. 11-16. Að sjálfsögðu verður ketillinn yfir eldinum á báðum þessum stöðum og lagað kaffi, jafnvel kakó líka og piparkökur í bauk.

Jólamarkaðir

Hefðbundnir jólamarkaðir verða bæði í Vaglaskógi og á Valgerðarstöðum í Fellum nú fyrir jólin. Mark­að­ur­inn í Vaglaskógi átti reyndar að fara fram 1. desember en vegna veðurs og ófærðar var honum frestað fram til 9. desember. Sá markaður er haldinn í samvinnu við handverksfólk og fleiri í heimahéraði og nemendur Stórutjarnaskóla selja kaffi og góðgerðir til að safna í ferðasjóð sinn. Skógræktin selur jólatré, greinar, arinvið, platta og fleira úr skóginum.

Auglýsing um jólamarkaðinn Jólaköttinn á Valgerðarstöðum í FellumÁ Valgerðarstöðum verður hinn árlegi Jólaköttur haldinn að venju, nú laugardaginn 15. desember kl. 10-16. Markaðurinn verður í rúmgóðum vinnslu­sölum Jurtar ehf (wasabi-ræktarinnar) þar sem Barri var áður til húsa. Nóg er þar af bíla­stæð­um og seljendur alls kyns varnings verða alls um 60 talsins. Seld verða jólatré bæði frá Skóg­ræktinni og skógarbændum, rauðgreni, blágreni, stafafura, fjallaþinur og fleira. Matvara er stór þáttur á markaðinum, skata, síld og rúg­brauð, svínakjöt, makríll, smákökur, flatbrauð og annað bakkelsi, einnig ýmiss konar handverk, t.d. vörur úr íslenskum viði, handgerð kerti, gler­vara, prjónavörur og fleira. Að markaðnum standa Félag skógarbænda á Austurlandi og Skógræktin á Hallormsstað.

Gróðursett til jólatrjáa

Á hverju ári er nokkuð gróðursett til jólatrjáa í þjóðskógum landsins. Á Vesturlandi segir Valdimar skógar­vörður að undanfarin hafi um 1.000 tré af helstu jólatrjáategundunum verið gróðursett. Rúnar, starfsbróðir hans á Norðurlandi segir að lítilræði hafi verið gróðursett af blágreni og rauðgreni en einnig töluvert af stafafuru seinni árin. Lítið hefur hins vegar farið niður af væntanlegum jólatrjám fyrir austan síðustu árin. Til stóð að auka þar ræktun fjallaþins í þessu skyni en á skortir að gróðrarstöðvar séu tilbúnar að rækta nóg af þeim efniviði sem Þór skógarvörður segir óviðunandi. Á Suðurlandi segir Trausti skógar­vörður að gróður­settar hafi verið tugþúsundir af stafafuru, þúsundir af rauðgreni og eitthvað svolítið af blágreni og fjallaþin.

Aðspurðir um tíðarfarið eru skógarverðir hæstánægðir með haustið enda gekk ekki vetur í garð fyrr en nú undir mánaðamótin. Valdimar Reynisson segist ekki muna eftir betri tíð við það sem af er jólavertíðinni.

Í lokin er vert að benda lesendum á jólatrjáavef Skógræktarinnar þar sem fræðast má um ræktun jólatrjáa og sjá það sem er efst á baugi. Einnig er ástæða til að minna á jólatrjáasíður skógræktarfélaganna þar sem sjá má hvaða félög selja jólatré í skógum sínum. Neðst er svo mynd sem Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, tók í Búrfellsskógi nýlega af myndarlegum einiberjarunn, einu alíslensku barrviðartegundinni. Víða virðist sem einir sé farinn að teygja sig upp í loft síðustu árin með lengri og mildari sumrum.

Einir (Juniperus communis) í Búrfellsskógi Haukadal. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson

Einir (Juniperus communis) í Búrfellsskógi Haukadal. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson
Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Trausti Jóhannsson