Kvistalausir útivistarbollar úr alaskavíði eftir Sigurgeir Sigurðsson, kennara á Akranesi
Kvistalausir útivistarbollar úr alaskavíði eftir Sigurgeir Sigurðsson, kennara á Akranesi

Nytjahlutir úr alaskavíði eru meðal þess sem nemendur í námskeiðinu Útikennsla og græn nytjahönnun hafa unnið á Menntavísindasviði HÍ nú á vorönninni. Þetta námskeið hefur nú verið haldið í hartnær tuttugu ár fyrir starfandi kennara og kennaranema. Vegna stöðugra vinsælda hefur það aldrei fallið út af listanum yfir valnámskeið sem í boði eru.

Námskeiðið Útikennsla og græn nytjahönnun á Menntavísindasviði HÍ er 5e námskeið á meistarastigi og hefur verið haldið frá upphafi samstarfs Skógræktarinnar og gamla Kennaraháskólans um skólaþróunarverkefnið Lesið í skóginn – með skólum sem hófst fyrir tæpum 20 árum. Námskeiðið Lesið í skóginn er einnig enn í gangi annað hvert ár í grunnnámi kennararmenntunarinnar. Bæði þessi námskeið eru valnámskeið en vegna mikilla vinsælda hafa þau ekki verið felld niður. Á námskeiðinu nú eru 30 nemendur víða að af landinu og koma af öllum skólastigum, frá leikskólum til framhaldsskóla. Flestir eru starfandi kennarar sem annað hvort stefna á meistaranám eða sérgreinakennarar að sækja sér kennsluréttindi.

Sem fyrr er skógurinn miðja námskeiðsins og fléttað er saman ferskum viðarnytjum, skapandi tálgun, skógarhirðu og ýmsu varðandi stöðu skógarins í sögu og menningu þjóða. Vegna þess hversu nemendahópurinn er fjölbreyttur var nú lögð sérstök áhersla á fjölbreytt verkefni í viðarnytjunum en líka lögð sérstök áhersla á að nemendur velji sér sjálfir verkefni og útfæri þau á sinn hátt. Það kom líka í ljós að lokinni skylduumfjöllun um ferskar viðarnytjar, þegar nemendur höfðu lært að sækja efni í verkefni með því að kljúfa mislanga viðarkubba og lesa í kvisti og viðargæði tegundanna, höfðu nemendurnir svo sannarlega skoðun á því hvað þá langaði til að vinna og hvernig í tálguninni.

Í seinni staðlotu heimsækir allur nemendahópurinn Ólaskóg, sett er upp sýning á tálgugripunum og skoðað hvar efnið í þá var tekið, hvernig og hvers vegna. Auk þess er fjallað um eldiviðargerð, útieldun, upplifun í skógi og kynnt er vistfræði skógarins og lífrænar ræktunaraðferðir.

Nemendur vinna einnig kennsluáætlun um skógartengt nám í skólastarfi auk lýsinga á tálguverkefnunum.

Á þessum námskeiðum fer fram mikilvægt skógaruppeldislegt nám sem hríslast út í skólasamfélagið, auk þess sem þátttakendur geta nýtt sér reysluna í eigin lífi.

Texti: Ólafur Oddsson
Myndir: Ólafur Oddsson og Sigurgeir Sveinsson