Yfirgnæfandi meirihluti skógarbænda býr á jörðum sínum eða í sama landshluta. Ljósmynd: Pétur Halldó…
Yfirgnæfandi meirihluti skógarbænda býr á jörðum sínum eða í sama landshluta. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Umræða um að stór hluti skógarbænda búi ekki á jörðum sínum er ekki byggð á sterkum rökum. Þrír fjórðu þeirra búa á jörðum sínum eða í sama landshluta. Einn af hverjum fimm hefur búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Annar landbúnaður, ferðaþjónusta eða önnur atvinnustarfsemi fer fram á 70% skógarbýla. Frá þessu segir í eftirfarandi grein sem birtist í Ársriti Skógræktarinnar 2020.

 

Atvinna og búseta skógarbænda

Grein eftir Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur og Valgerði Jónsdóttur

Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

Í þessari stuttu samantekt er ætlunin að taka saman og gera grein fyrir búsetu skógarbænda og atvinnuháttum. Auk þess verða settar fram vangaveltur um möguleika til atvinnuuppbyggingar og uppbyggingar þeirrar nýju auðlindar sem skógar eru.

Með sameiningu landshlutaverkefnanna í skógrækt og Skógræktar ríkisins í Skógræktina árið 2016 færðust verkefni skógræktar á lögbýlum undir einn hatt. Gömlu landshlutaverkefnin voru um margt ólík, enda hófust þau á mismunandi tímum við ólíkar aðstæður og störfuðu hvert og eitt undir sinni stjórn. Eftir sameiningu hefur verið unnið að því að samræma verkefni landeigenda sem taka þátt í nytjaskógrækt, með framlögum Skógræktarinnar, undir sömu reglur og leitast við að veita skógarbændum sem besta þjónustu í formi ráðgjafar og eftirlits. Í því sambandi var nýlega send út þjónustukönnun til skógarbænda en markmiðið er að gera það með reglubundnum hætti til að hægt sé að fylgjast með viðhorfi bænda til þjónustu Skógræktarinnar. Með því er hægt að bregðast við ef vísbendingar eru um að einhverju sé ábótavant.

Í byrjun árs 2021 eru rétt um 600 samningar um nytjaskógrækt á landinu öllu. Þessi tala sveiflast allajafna nokkuð til en jafnframt því að nýir samningar líta dagsins ljós eru aðrir endurnýjaðir eða sagt upp af ýmsum orsökum. Öllum samningum um skógrækt á lögbýlum er þinglýst á viðkomandi jörð skv. þeim lögum og reglum sem í gildi eru. Auk þess eru fjölmargir skjólbelta- og skjóllundaræktendur sem ýmist eru einnig í skógrækt eða skjólbeltarækt eingöngu. Þeir samningar eru einfaldari í sniðum og ekki þinglýst á viðkomandi jörð heldur er „fókusinn“ meira á einstök verkefni innan hverrar jarðar í hvert skipti.

Samningar um skógrækt á lögbýlum eftir landshlutumEins og sést á þessu kökuriti eru flestir skógræktarsamningar á Norðurlandi, enda er starfsvæði gömlu Norðurlandsskóga einna stærst ásamt Suðurlandi. Þar eru hins vegar mun fleiri skjólbeltabændur en á Norðurlandi. Fjöldi samninga segir heldur ekki alla söguna, þar sem skógræktarsvæðin eru mismunandi stór. Með aukinni samræmingu og samvinnu í nytjaskógrækt á lögbýlum hverfa þessi gömlu landshlutamörk væntanlega með tímanum.

Það getur einnig verið gagnlegt að skoða hvers konar búskapur eða atvinnustarfsemi er stunduð ásamt skógræktinni á jörðum víðs vegar um landið. Þess vegna fóru allir skógræktarráðgjafar yfir jarðalista á sínum svæðum og skilgreindu hvers konar starfsemi væri á jörðunum. Það er áhugavert að sjá að innan við helmingur er ekki í neinum hefðbundnum búskap á jörð. Á kökuritinu hér fyrir neðan má sjá skiptinguna á milli búgreina en jafnframt að í 30% tilfella er enginn búskapur á jörð. Þá er ferðaþjónusta stunduð á 11% jarðanna og á 13% þeirra er önnur atvinnustarfsemi. Það sem er skilgreint sem önnur ativinnustarfsemi er t.d. bílaverkstæði, trésmíðar o.s.frv.

Mynd 2. Búskapur skógarbændaSkógrækt er ekki enn komin á það stig hérlendis að skógarbændur geti haft lifibrauð sitt af henni eingöngu, en svo gæti orðið í náinni framtíð. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hvers konar fjölbreytni í atvinnuháttum styður við hvað annað á hverju svæði og það á einnig við um skógrækt á jörðum bænda.

Í opinberri umræðu um skógrækt, hafa „andstæðingar“ málstaðarins oft freistast til að halda því fram að stór hluti skógarbænda búi ekki á jörðum sínum, séu jafnvel ríkir og búi í Reykjavík! Þessu hefur skógræktarfólk svarað með þeim góðu rökum að ólíkt mörgum öðrum atvinnutækifærum sem hið opinbera hefur leitast við að koma upp á landsbyggðinni, þá er skógurinn þar sem til hans er stofnað, skógur er auðlind sem verið er að byggja upp og þar með atvinnutækifæri, bæði í nútíð og framtíð.

Mynd 3. Búseta skógarbændaÞessi kaka sýnir að umræðan um að stór hluti skógarbænda búi ekki á jörðum sínum er ekki byggð á sterkum rökum. Vissulega á hún rétt á sér eins og öll umræða yfirleitt en stóra spurningin er hvers vegna hún komi upp fyrst ef þetta er raunin. Á kökuritinu sést að þrír fjórðu hlutar skógarbænda búa á jörðum sínum, eða í sama landshluta, þá annað hvort í nærliggjandi þéttbýli eða í sömu sveit. Velta má fyrir sér hvort það búsetuval tengist þeirri starfsemi sem á sér stað á jörðinni, hvort skógræktin stuðli að því að ábúendur kjósi að búa í sem mestri nálægð við skóginn sinn.

Það væri áhugavert að sjá að gerðar yrðu rannsóknir á þessu sviði og skoðaðir hinir ýmsu vinklar á búsetuvali og atvinnu skógarbænda. Þessi litla óvísindalega samantekt gefur þó einhverja hugmynd um hvernig staðan er í dag.

 Ársrit Skógræktarinnar 2020