Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Svo virðist sem Evrópusambandið sé að ná þeim markmiðum sem það setti sér með skógaáætlun sinni til 2020. þetta kemur fram í áfangaskýrslu sem kom út 7. nóvember og tíundar árangurinn á miðju tíma­bili áætlunarinnar. Í áætluninni var lögð áhersla á að hvetja til sjálfbærrar skógræktar, bæði innan sambandsins og um allan heim.

Á ensku hefur skýrslan yfirskriftina Progress in the implementation of the EU forest strategy. Megin­niður­staða hennar er að markmiðin sem sett voru í áætluninni hafi verið skýr og þær aðgerðir sem ráðist var í til að ná markmiðunum hafi heppnast vel.

Áætlunin var sett árið 2013 til að samhæfa viðbrögð Evrópusambandslandanna við þeim ógnum sem steðja að skógum og skógarnytjum í álfunni. Lagt er upp með skilgreindar aðgerðir sem ráðast skuli í til að ná markmiðum á átta skilgreindum sviðum. Áfangaskýrslan sýnir að í flestum hafi aðgerðum verið hrundið af stað á þessum átta skilgreindu sviðum eins og til var ætlast í upphafi.

Öflug skógaráætlun er einn af grunnþáttunum í allsherjaráætlun Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Með því að hvetja til og tala fyrir sjálfbærum nytjum skóga og fjölþættu hlutverki þeirra stuðlar áætlunin að því að draga úr skógareyðingu, minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda með því að binda kolefni í skógi, efla viðnámsþrótt vistkerfa á tímum hraðra loftslagsbreytinga og varðveita líffjölbreytileika og aðra vistkerfisþjónustu.

Þau jákvæðu áhrif sem þarna sjást sýna sig bæði innan Evrópusambandsins og utan. Í aðgerðaáætlun ESB um skóga, skógastjórnsýslu og viðskipti með timbur birtist sú viðleitni sambandsins að draga úr ólöglegu skógarhöggi í heiminum. Skýrslan sýnir að á árunum 2015-2017 hefur færst aukinn kraftur í aðgerðir Evrópusambandsins til að draga úr ólöglegu skógarhöggi í heiminum. Það er meðal annars þakkað aukinni samvinnu og samræmingu sem fæst með hinni sameiginlegu skógræktaráætlun, bæði hjá Evrópuríkjunum sjálfum og hjá alþjóðastofnunum.

Stuðningurinn við verndun og sjálfbærar nytjar skóga felur í sér mikil tækifæri fyrir græna hagkerfið hjá Evrópusambandinu. Árið 2015 stóð öll virðiskeðja skógariðnaðarins undir 3,6 milljónum starfa, veltu upp á um 640 milljarða evra og virðisauka sem nam um 200 milljörðum evra. Með nýsköpun verða stöðugt til nýjungar sem byggjast á nýtingu skógarafurða og leysa af hólmi hráefni úr jarðefnaeldsneyti, bæði lofts­laginu og heilsu mannannanna til heilla. Af skýrslunni má ráða að áætlunin hafi ýtt undir þessa þróun með sjálfbærri og árangursríkri nýtingu skógarauðlindarinnar og með þróun lífhagkerfisins, þar á meðal líforku.

Evrópusambandið hefur líka staðið í fararbroddi með dreifbýlisáætluninni sem er hluti af landbúnaðar­áætlun sambandsins. Undir þeim formerkjum hefur verið varið 8,2 milljörðum evra af almanna­fé aðildarlandanna til markmiða og forgangsmála áætlunarinnar. Auk þess hefur aukin áhersla á rannsóknir og nýsköpun leitt til betri samræmingar á því hvernig fjármagni dreifbýlisáætlunarinnar er varið. Þá hefur rannsóknarfé sem rennur til skógargeirans líka aukist verulega. Á árunum 2013 til 2017 runnu 615 milljónir evra til 249 slíkra verkefna og leiddu af sér bæði störf og vöxt.

Frekari upplýsingar og ítarlegri um ólíka þætti áætlunarinnar er að finna í skýrslunni sjálfri sem hlaða má niður á vef Evrópuráðsins.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson