Frá sumarhátíð Garðyrkjuskólans á Reykjum. Ljósmynd af vef LbhÍ
Frá sumarhátíð Garðyrkjuskólans á Reykjum. Ljósmynd af vef LbhÍ

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir garðyrkjuverðlaunin 2022 á sumarhátíð Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum sem fram fer á morgun, sumardaginn fyrsta. Þá verður að venju opið hús í Garðyrkjuskólanum og ýmislegt að sjá og gera. Forsetinn afhendir garðyrkjuverðlaunin á sérstakri hátíðardagskrá milli kl. 14 og 15 og þar afhendir líka formaður Bændasamtakanna umhverfisverðlaun Hveragerðis.

Hátíðin stendur frá kl. 10-17. Á sölutorgi verður hægt að nálgast ferskt grænmeti, blóm, kryddolíur, jarðaberjaplöntur tilbúnar í stofugluggann og fleira til. Bananahúsið verður opið fyrir þau sem vilja upplifa hitabeltisstemmningu. Á útisvæðum verða vélar og tæki til sýnis og hægt að fá ketilkaffi og kannski sykurpúða til að grilla.  Í verknámshúsi verða verkefni nemenda til sýnis, tjarnir og náttúrugrjót. Einnig verða þar grillaðar pylsur til sölu og ís og í eldhúsinu verða að venju vöfflur, kaffi og kakó til sölu ásamt ís sem hægt er að njóta í hlýjunni í garðskálanum.

Um miðjan daginn verður að venju hátíðardagskrá þar sem forseti Íslands afhendir garðyrkjuverðlaunin sem nú eru veitt í 20. sinn. Einnig veitir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, umhverfisverðlaun Hveragerðis.

Dagskrá

Fundarstjóri: Björgvin Örn Eggertsson

14.00-14.05 – Tónlistaratriði - Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir þverflautunemandi
14.05-14.10 – Setning – Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
14.00-14.30 – Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhendir garðyrkjuverðlaun LbhÍ 2022
14.30-14.35 – Tónlistaratriði - Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir þverflautunemandi
14.35-14.45 – Formaður Bændasamtaka Íslands, Gunnar Þorgeirsson, afhendir umhverfisverðlaun Hveragerðis
14.45-14.55 – Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu, flytur ávarp
14:55-15:00 – Slit – Björgvin Örn Eggertsson fundarstjóri
 
 Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson