Mælingaflokkurinn eftir mælinguna á lerkitrénu sem líklega er það hæsta á landinu. Frá vinstri: Sver…
Mælingaflokkurinn eftir mælinguna á lerkitrénu sem líklega er það hæsta á landinu. Frá vinstri: Sverrir Baldur Torfason nemi, Björn Traustason sérfræðingur, Hjördís Jónsdóttir nemi og Þór Þorfinnsson skógarvörður. Aftan við þau er hæsta lerkitré sem mælst hefur á landinu. Ljósmynd: Björn Traustason

Ný mæling á þróttmiklu lerkitré í Hallormsstaðaskógi sýnir að það er rétt rúmlega 25 metrar á hæð. Tréð er enn í miklum vexti og ekki er vitað um hærra lerkitré á landinu. Skógmælingafólk frá Mógilsá var á ferðinni á Hallormsstað og sló máli á tréð ásamt skógarverði.

Þessa mynd tók Þröstur Eysteinsson af Fálkakletti 9. maí 2007. Þá var nokkurt jafnræði með hæstu trjánum sem sjást frems en annað þó sjónarmun hærraÍ Hallormsstaðaskógi er útsýnisstaður einn sem Fálkaklettur heitir. Margir leggja leið sína þangað til að horfa yfir skóginn. Við rætur klettsins var fyrir alllöngu gróðursett rússalerki ættað frá Boxbaka í Finnlandi. Það voru fá tré og er þar því bara lítill lundur. Hann er ekki sérstakur að því leyti að trén eru upphaflega ættuð frá Raivola eins margir aðrir lerkilundir í skóginum og allt það rússalerki sem gróðursett hefur verið á landinu undanfarna tvo áratugi. Undanfarin ár hafa menn þó tekið eftir því að eitt trjánna í lundinum vex og vex eins og enginn sé morgundagurinn.

Ellefu árum og næstum heilu sumri síðar, 18. ágúst 2018, hafði hæsta lerkið vaxið mun meira en nágrannatrén. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson Myndirnar sem hér fylgja voru teknar yfir litla lerkilundinn ofan af Fálkakletti með 11 ára millibili. Á þeirri fyrri sem tekin var árið 2007 má sjá að hæsta tréð er aðeins lítið eitt hærri en hin. Hin myndin var tekin árið 2018 og má þar bæði sjá að öll trén hafa hækkað en það hæsta mun meira en hin. Auk þess er tréð einstaklega beinvaxið og fallegt.

Þegar vaskur hópur skógmælingafólks frá Mógilsá var á ferð á Hallormsstað 12. ágúst mældu þau tréð ásamt skógarverðinum samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum. Reyndist það vera 25,07 metrar á hæð. Segir Lárus Heiðarsson (sem er líka vaskur skógmælingamaður) það vera langhæsta lerkitréð í skóginum, mun hærra en trén í Guttormslundi eða Atlavíkurlundi, sem voru fyrr til að ná 20 m hæð en vaxa nú mjög hægt. Og þar sem það er hæsta lerkitréð í Hallormsstaðaskógi er það mjög sennilega það hæsta á landinu.

Í sömu ferð mældist evrópulerkið gamla í trjásafninu á Hallormsstað litlu lægra eða 24,91 m. Það er því hugsanlega næsthæsta lerkitré landsins.

Texti: Þröstur Eysteinsson
Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson