Lucile Delfosse, skógfræðingur og skógarhöggsmaður hjá Skógræktinni á Tumastöðum í Fljótshlíð, við b…
Lucile Delfosse, skógfræðingur og skógarhöggsmaður hjá Skógræktinni á Tumastöðum í Fljótshlíð, við birkitréð sem gróðursett var til heiðurs Vigdísi á níræðisafmæli hennar. Ljósmynd: Hrafn Óskarsson

Efnilegt birkitré var gróðursett í gær til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, á níræðisafmæli hennar. Hvatning Skógræktarinnar til fólks að knúsa tré vekur nú athygli fjölmiðla um allar álfur.

Lucile knúsar myndarlegt sitkagreni á Tumastöðum. Alvöru knús! Ljósmynd: Hrafn ÓskarssonEins og við ræddum um í afmæliskveðju til Vigdísar í gær á afmælisdeginum hefur hún unnið ötullega að því að efla áhuga landsmanna á trjám og skógrækt. Því er vel við hæfi að efna til gróðursetningar í tilefni afmælisins, jafnvel þótt enn séu fáeinar vikur þar til gróðursetning hefst af krafti, fyrst á Suður- og Vesturlandi.

Hrafn Óskarsson og Lucile Delfosse í starfstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð brugðust skjótt við kallinu að gróðursetja tré fyrir Vigdísi. Fyrir valinu varð vel ættuð ilmbjörk sem á eftir að sóma sér vel á góðum stað í landi Tumastaða.

Lucile notaði líka tækifærið til að bæta í safn mynda af starfsfólki Skógræktarinnar, venslafólki og vinum að knúsa tré. Nóg er af myndarlegum sitkagrenitrjám í Fljótshlíðinni enda skilyrði óvíða betri fyrir tegundina.

Rætt við skógræktarstjóra í ástralska ríkisútvarpinu um trjáknúsið. Skjámynd af abc.net.auHeimspressan logar af trjáknúsi Íslendinga

Sú hvatning Skógræktarinnar til fólks í veirufárinu að fara út og knúsa tré til að njóta útiveru í skógarumhverfi hefur vakið athygli í fjölmiðlum hér innanlands og á samfélagsmiðlum.  Tímaritið Iceland Review fjallaði um þetta átak eftir að viðtal birtist við skógarvörðinn og aðstoðarskógarvörðinn á Hallormsstað í fréttum Sjónvarpsins. Í framhaldi af því hafa erlendir fjölmiðlar tekið upp fréttirnar og jafnvel nokkrir haft samband beint við Skógræktina til að forvitnast. Í gær tók t.d. Patricia Karvelas hjá ástralska ríkisútvarpinu, ABC Radio National viðtal við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra sem segir átakið til gamans gert og til að hvetja fólk til að nýta skógana til útivistar.

Skjámynd úr morgunþættinum Good Day Sacramento þar sem Cody Stark ræddi við ÞröstSvipaða sögu er að segja af skemmtilegu viðtali á svæðismiðli bandaríska fjölmiðlarisans CBS í Sacramento í Kaliforníu. Í morgunþætti stöðvarinnar, Good Day Sacramento, ræddi sjónvarpsmaðurinn Cody Stark við Þröst um sama efni. Þar var Þröstur spurður að því hvort hann hefði talaði við Björk Guðmundsdóttur nýlega og hann sagðist vissulega hafa talað við björk í fyrrasumar en svo væri systir hans líka skólasystir Bjarkar. Þar með vann sjónvarpsmaðurinn líka veðmál við vinnufélaga sinn. Cody spurði líka hvort hann gæti fengið mynd af sér að knúsa tré birta á skogur.is og það var að sjálfsögðu velkomið. Í myndasafninu hér fyrir neðan má finna kappann að knúsa myndarlegt pálmatré í blíðunni eilífu í Sacramento. Hér til hliðar er hins vegar viðtal hans við Þröst úr morgunþættinum Good Day Sacramento 16. apríl.

Auk þessara viðtala við miðla í Ástralíu og Kaliforníu viðtals hefur umfjöllun birst í eistnesku sjónvarpi, BBC hefur tekið málið fyrir og fleiri og fleiri miðlar víða um heim. Sjá dæmi í eftirfarandi hlekkjum.

#knusumtre

Texti: Pétur Halldórsson