„Jútjúberinn“ Mr Beast tók áskorun fylgjenda sinna að gróðursetja tuttugu milljónir trjáa þegar tala…
„Jútjúberinn“ Mr Beast tók áskorun fylgjenda sinna að gróðursetja tuttugu milljónir trjáa þegar tala fylgjendanna hafði náð þessari sömu tölu, tuttugu milljónum. Nú er verkefnið hafið og byrjar vel. Skjámynd úr myndbandi Mr Beasts.

Youtube-stjarnan Mr Beast hefur ásamt fleiri „jútjúberum“ hrundið af stað átaksverkefninu Team Trees sem hyggst safna fyrir gróðursetningu 20 milljóna trjáplantna áður en árið er liðið. Fyrir hvern Bandaríkjadollara sem gefinn er í verkefnið er gróðursett eitt tré og á fyrstu tveimur sólarhringunum söfnuðust rúmar fimm milljónir dollara.

Samtakamátturinn er það sem máli skiptir, sergir Mr Beast. Við getum ekki beðið eftir því að vandamálið sé leyst fyrir okkur. Við verðum að gera eitthvað sjálf. Skjámynd úr myndbandi Mr BeastsVerkefnið spratt af áskorun sem Youtube-stjarnan Mr Beast fékk þegar hann hafði náð að safna um sig 20 milljónum áhangenda á myndbandarásinni Youtube. Undirskriftalisti var settur af stað á spjallvefnum Reddit og skemmst er frá því að segja að Mr Beast svaraði kallinu. Í kjölfarið lögðu aðdáendur hans til að hann fengi í lið með sér fleiri Youtube-stjörnur eða „jútjúbera“  til þess að áhrifin yrðu meiri og líklegra að takmarkið næðist. Úr varð góður hópur sem unnið hefur að því undanfarna mánuði að koma verkefninu af stað. 

Hópurinn kom sér í samband við samtökin Arbor Day Foundation, einhver elstu samtök í Bandaríkjunum sem berjast fyrir aukinni gróðursetningu trjáplantna og eru sögð stærstu samtök á þessu sviði í heiminum. Þessi samtök njóta álíka mikils trausts meðal almennings vestan hafs og bandaríski Rauði krossinn. Framlög til verkefnisins fara beint til samtakanna en Arbor Day Foundation er ekki rekið í hagnaðarskyni enda eru þetta góðgerðarsamtök.

Fyrir upphæðina sem safnast verða gróðursett tré víða um heiminn þar sem þeirra er talin vera brýn þörf. Víða verður þetta á ríkislandi þar sem skógarstofnanir í viðkomandi löndum sjá til þess að skógurinn fái frið til að vaxa upp og verði rétt hirtur. Markmiðið er að gróðursett verði í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu og skógar vaxi á ný þar sem þeir uxu áður fyrr. 

Samtökin Arbor Day Foundation vinna náið með atvinnufólki og sérfræðingum í skógrækt svo sem bandarísku skógræktinni, U.S. Forest Service, og öðrum opinberum stofnunum en einnig frjálsum félagasamtökum. Safnað er frjálsum framlögum sem deilt er út til samstarfsaðila sem sjá um gróðursetninguna. Gróðursetning þeirra tuttugu milljóna trjáa sem stefnt er að því að safna fyrir í verkefni Mr. Beasts fer fram á næsta ári og hefst strax í janúarmánuði. Henni á að ljúka fyrir árslok.

Merki og ákall verkefnisinsVerkefnið fór opinberlega af stað fimmtudaginn 24. október og á fyrstu tveimur sólarhringunum náðist að safna rúmlega fjórðungnum af því sem stefnt er að, rúmum fimm milljónum dollara sem duga til gróðursetningar á fimm milljónum trjáplantna. Áhugavert verður að fylgjast með verkefninu næstu vikurnar. Þetta verkefni er eitt fjölmargra dæma um þá hreyfingu sem komin er af stað í heiminum að útbreiða skóga heimsins á ný og vinna þannig gegn ógninni sem steðjar að vegna röskunar á loftslagi jarðarinnar. Skógrækt er mikilvægt verkfæri í þeirri baráttu og vaxandi skilningur er á því meðal almennings hvarvetna í heiminum.

Nánari upplýsingar má fá á vef verkefnisins, teamtrees.org

Texti:Pétur Halldórsson

teamtrees.org