Fulltrúar Súrefnis ásamt gróðursetningarmönnum í Símonarskógi. Þríhyrnignur í baksýn. Ljósmynd af ve…
Fulltrúar Súrefnis ásamt gróðursetningarmönnum í Símonarskógi. Þríhyrnignur í baksýn. Ljósmynd af vef Súrefnis

Gróðursettar hafa verið ríflega 25.000 trjáplöntur í fyrsta samstarfsverkefni Skógræktarinnar við Súrefni. Fyrsti samningurinn við Súrefni felst í gróðursetningu í Símonarskógi sem er við þjóðveg 1 vestan Markarfljóts. 

Gróðursetningarflokkur frá Gone West sá um gróðursetninguna í byrjun maí undir stjórn Trausta Jóhannssonar, skógarvarðarins á Suðurlandi. Sagt er frá verkefninu á vef Súrefnis í máli og myndum. Gróðursett var í þessari fyrstu atrennu upp í samninga Súrefnis við  Hringrás HP Gáma, fyrirtækið Maul og fleiri. Gert er ráð fyrir að á samningstímanum bindi sá skógur sem gróðursett var til um 5.000 tonn af koltvísýringi. Trjátegundirnar sem voru settar niður voru 85% alaskaösp og 15% birki.

Í Símonarskógi verður þar með fyrsti „Súrefnisskógurinn“ og þar verður ræktaður skógur á a.m.k. 20 hekturum lands. Þegar fullgróðursett verður í Símonarskóg verður haldið áfram gróðursetningu fyrir Súrefni á svæði neðan vegar á Tumastöðum í Fljótshlíð þar sem eru í það minnsta 30 hektarar.

Súrefni er ungt íslenskt fyrirtæki sem vill gera fólki og fyrirtækjum kleift að taka ábyrgð á eigin kolefnisfótspori með kolefnisbindingu í skógrækt. Efnt er til vottunarhæfra skógræktarverkefna í samstarfi við Skógræktina og alþjóðlegar vottunarstofur. Markmiðið er að öll kolefnisjöfnunarskógrækt á vegum Súrefnis verði vottuð með alþjóðlegri vottun.

Texti: Pétur Halldórsson