Keppst við ágræðsluna í ræktunargámnum á Vöglum. Fremstur á myndinni er Brynjar Skúlason skógerfðafr…
Keppst við ágræðsluna í ræktunargámnum á Vöglum. Fremstur á myndinni er Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur, þá Valgerður Jónsdóttir, verkefnisstjóri fjölgunarefnis, og við hlið hennar glittir í Þuríði Davíðsdóttur, starfsmann á Vöglum. Ljósmynd: Rakel Jónsdóttir

Í apríllok var unnið að því í ræktunargámi Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal að græða úrvalsefni af sitkabastarði á grunnstofna sem í fyllingu tímans verða gróðursettir í frægarða til framleiðslu á íslensku fræi til skógræktar. Ágræðslunni er ætlað að gefa frostþolinn efnivið sitkabastarðs til að bæta árangur við ræktun grenis og draga úr afföllum vegna frosts.

Árið 1995-1996 voru settar út kvæmatilraunir víða um land með sitkagreni og sitkabastarði. Á þeim stöðum þar sem reyndi á frostþol kvæmanna sýndu nokkur kvæmi sitkabastarðs yfirburði, bæði í lifun og hæðarvexti. Innan þessara bestu kvæma voru afburða einstaklingar sem nú hafa verið valdir á sex tilraunastöðum til undaneldis í frægarði.

Um 60 klónar verða ágræddir á samtals 400 grunnstofna vorið 2022 og 2023. Vonir standa til að ný aðstaða í ræktunargámi á Vöglum í Fnjóskadal muni tryggja góðan árangur við ágræðsluna. Rétt hitastig, stöðugt ljós og hár loftraki eru lykilþættir til að ágræðslan heppnist sem best.  Ágræddar plöntur verða ræktaðar áfram í pottum í tvö sumur og síðan komið fyrir þar sem fræræktarskilyrði eru ákjósanleg. Með þessu verður til stofn af sitkabastarði sem hefur mikinn vaxtarþrótt en um leið gott frostþol til að takast á við fyrstu frost að hausti.

Afföll á greni hafa verið vandamál víða um land, ekki síst á flatlendissvæðum í svokölluðum frostpollum þar sem mest hætta er á frosti á vaxtartíma og áður en trén hafa gengið frá sér fyrir veturinn og byggt upp frostþol. Með betri efniviði má ná betri árangri á slíkum svæðum í öllum landshlutum.

Yfirumsjón með þessu starfi hefur Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur sem hér sést á meðfylgjandi mynd ásamt Valgerði Jónsdóttur, verkefnastjóra fjölgunarefnis hjá Skógræktinni og bak við hana glittir í Þuríði Davíðsdóttur, starfsmann á Vöglum. Myndin er tekin í ræktunargámi Skógræktarinnar á Vöglum þar sem fram fara tilraunir, gæðaprófanir á plöntum, stýrð ræktun og fleira.

Texti: Pétur Halldórsson