Ólafur Th. Arnarsson, nýráðinn gagnagrunnssérfræðingur Skógræktarinnar. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartan…
Ólafur Th. Arnarsson, nýráðinn gagnagrunnssérfræðingur Skógræktarinnar. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson

Ólafur Stefán Arnarsson eðlisfræðingur hefur verið ráðinn í nýja stöðu gagnagrunnssérfræðings á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar. Ólafur starfar á nýrri loftslagsdeild rannsóknasviðs sem tók til starfa um áramótin.

Loftslagsmálin hafa orðið æ viðameiri þáttur í verkefnum rannsóknasviðs og enn aukast þau eftir því sem áformum stjórnvalda um aukna skógrækt til kolefnisbindingar vindur fram. Skógræktin skilar árlega tölum til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um bindingu í skóglendi á Íslandi og aðkallandi var orðið að ráða sérfræðing sem sæi um forritun og rekstur gagnagrunns með þeim viðamiklu gögnum sem skóg­mæl­ing­un­um tilheyra og skýrslugerðinni um bindingu skóganna. Frá og með áramótum starfar sérstök loftslagsdeild á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, og henni stýrir Arnór Snorrason. Auk hans til­heyra lofts­lags­sviði þrír sérfræðingar, Björn Traustason, Bjarki Þór Kjartansson og hinn nýi liðsmaður, Ólafur Stefán Arnarsson, sem tók til starfa um miðjan janúar.

Starf Ólafs verður einkum að byggja upp og halda utan um gagnagrunna landsskógarúttektar, gagna­grunna bindingar og losunar gróðurhúsalofttegunda vegna skóga og skógræktar, forritun á gagna­vinnslu­ferl­um og spálíkanagerð. Þá tekur Ólafur líka þátt í vettvangsúttektum og mælingum.  Ólafur var valinn úr stórum hópi umsækjenda en alls sóttu 40 manns um starfið.

Ólafur lauk námi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands 1994 og hefur frá aldamótum unnið við forritun og upp­byggingu gagnagrunna, m.a. hjá Kaupþingi en einnig hjá Veðurstofunni þar sem hann þróaði og rak jarð­skjálftakerfi stofnunarinnar. Áður en hann kom til Skógræktarinnar starfaði hann sem „DevOps“ hjá Netapp Iceland. „DevOps“ er aðferðafræði við hugbúnaðarþróun sem sameinar hefðbundna hug­bún­að­ar­þró­un og upplýsingatæknikerfi. Markmiðið er að stytta þróunartímann og koma ótt og títt út nýjum eiginleikum, lagfæringum og uppfærslum í takti við þróun þeirrar starfsemi sem hugbúnaðurinn á að þjóna.

Ólafur Stefán Arnarsson býr með Ágústu V. Sverrissdóttur og eiga þau þrjá drengi.

Starfsfólk Skógræktarinnar býður Ólaf velkomin til starfa og hlakkar til samstarfsins.

Texti: Pétur Halldórsson