William Nikolakis sem stýrir meistaranámi í alþjóðaskógfræði við háskólann í Bresku-Kólumbíu og Gunn…
William Nikolakis sem stýrir meistaranámi í alþjóðaskógfræði við háskólann í Bresku-Kólumbíu og Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri hjá Skógræktinni. Mynd: Bændablaðið/HKr.

Ísland hefur allt sem þarf til forystu í loftslagsmálum og bindingu koltvísýrings að mati tveggja sérfræðinga sem nú leita leiða til að gera fyrirtækjum og stofnunum kleift í sameiningu að draga úr losun koltvísýrings og ráðast í bindingu hans.

Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri rekstrarsviðs Skógræktarinnar, lauk á síðasta ári meistaranámi í alþjóðaskógfræði við háskólann í Bresku-Kólumbíu í Kanada. Þar kynntist hann vel stjórnanda námsins, William Nikolakis, og þeir fóru að velta fyrir sér hvernig fá mætti fyrirtæki og stofnanir til að starfa saman að lausn loftslagsvandans.

Rætt var við þá Gunnlaug og William í Bændablaðinu 29. maí með fyrirsögninni „Samvinna er lykilatriði“. Þar segir Gunnlaugur að þeir William hafi farið að ræða saman um hvaða möguleika Ísland hefði til að draga úr losum gróðurhúsalofttegunda og bindingu koltvísýrings. „Í framhaldi af því fórum við að skoða enn frekar hvað Ísland gæti gert og hvað Íslendingar eru að gera vel og hvað mætti gera betur,“ segir Gunnlaugur í samtali við blaðið. Ísland hafi sett sér skýr markmið í loftslagsmálum og Íslendingar vilji skila náttúru landsins í góðu ástandi til komandi kynslóða. Hvort tveggja séu skref í rétta átt.

Ræða við fulltrúa atvinnugreina

„Næsta skref var að skoða hvað þeir aðilar sem eru að vinna í tengslum við loftslagsmál væru að gera og hvort þeir væru að vinna saman og þá á hvaða hátt. Það sem við erum að gera núna er að hitta yfir 20 forsvarsmenn hinna ýmsu greina atvinnulífsins, skógræktar, landgræðslu, bændasamtaka, sjávarútvegs, iðnaðar og ferðamála, og kanna hvernig samvinnu þeirra er háttað um þær aðgerðir sem þarf að fara í. Auk þess leitumst við eftir að ná fram sjónarmiðum sem flestra um hvað eigi að gera og hvernig sé best að gera það. Í lokin munum við taka efnið saman og birta sem grein í erlendu tímariti og kynna á Íslandi,“ segir Gunnlaugur.

Miklir möguleikar til aðdraga úr losun

William segir í Bændablaðinu að verkefnið sé einskorðað við Ísland og að svona athugun hafi ekki verið gerð áður með það að markmiði að vinna gegn loftslagsbreytingum. „Ástæða þess að Ísland varð fyrir valinu er sú að stjórnvöld hafa sett sér markmið í loftslagsmálum, landið er eyja og því gott rannsóknarsvæði. Að mínu mati er staðan þannig að ef það er ekki hægt að draga úr losun koltvísýrings á Íslandi þá séum við í verulega vondum málum þegar kemur að því að draga úr losuninni á heimsvísu.

Ísland hefur allt sem til þarf til að draga úr losun og auka bindingu koltvísýrings. Möguleikar til að endurheimta land á Íslandi eru miklir, hvort sem það er gert með endurheimt votlendis eða með aukinni skógrækt.

Fólk um allan heim er að leita að lausnum og hvernig hægt sé að takast á við loftslagsmálin og að mínu mati hefur Ísland allt sem til þarf til að verða leiðandi og til fyrirmyndar á því sviði,“ segir William.

Leita leiða til samstarfs

Gunnlaugur og William beita akademískum aðferðum í verk­efninu og skoða meðal annars hvernig fyrirtæki starfa saman að sameiginlegum verkefnum og reyna að finna leiðir sem gera fyrirtækjum og stofnunum fært í sameiningu að draga úr og binda koltvísýring. „Við vitum fyrirfram að markmiðið er skýrt og að leiðin að því er fær en við þurfum að finna leiðir til að gera það sameiginlega og vera samstiga þegar kemur að leiðum til að ná takmarkinu. Það er engin ein leið sem hentar öllum og því þarf að skoða möguleikana til lausnar í sem víðustu samhengi,“ segir William.

Gunnlaugur segir að þeim virðist grundvöllur til samstarfs í loftslagsmálum vera meiri í dag en fyrir nokkrum árum. „Þó svo að enn geti verið einhver núningur á milli einstakra fyrirtækja eða stofnana gera allir sér grein fyrir því að til lengri tíma náum við mun meiri árangri með því að vinna saman en hver í sínu lagi,“ er haft orðrétt eftir Gunnlaugi í Bændablaðinu 29. maí.

Lagað að skogur.is: Pétur Halldórsson