Sífellt fjölgar frisbígolfvöllum á landinu og nú er fullgerður nýr völlur í Hallormsstaðaskógi, stei…
Sífellt fjölgar frisbígolfvöllum á landinu og nú er fullgerður nýr völlur í Hallormsstaðaskógi, steinsnar frá Atlavík. Ljósmynd: www.hengifoss.is

Horft af einum teignum í brautinni. Ljósmynd: Skógræktin HallormsstaðBæst hafa nýjar uppsprettur ævintýra við þá fjölbreyttu útivistarmöguleika sem Hallormsstaðaskógur býður gestum sínum. Settur hefur verið upp frisbígolfvöllur og sömuleiðis er þar komin fjallahjólaleið. Þá er líka hægt að fara í ratleik með snjallsímann í hönd.

Níu körfur hafa verið settar upp á frisbígolfvellinum sem er milli Atlavíkur og Guttormslundar. Gengið er frá bílastæðinu við Guttormslund og niður í lundinn þar sem fyrstu körfuna er að finna. Völlurinn er á skemmtilegu svæði þar sem er að miklu leyti bjartur, grisjaður lerkiskógur en líka birkiskógur. Við gerð teiganna var að sjálfsögðu notað timbur úr skóginum og í stað gerviefna var sett viðarkurl sem yfirborðsefni. Kort af frisbígolfvellinumFrisbígolfvöllurinn í Hallormsstaðaskógi nýtur nú þegar töluverðra vinsælda og hann er kominn inn á vefinn  Wikiloc þar sem hægt er að skoða völlinn betur, afstöðu hans á korti. Hringurinn er rétt rúmlega kílómetri að lengd en fólk sem spilar allan völlinn gengur auðvitað miklu lengri leið samanlagt. Þetta er því góð leið til að njóta lífsins í skóginum.

Skemmtileg fjallahjólaleið

Á fjallahjólaleiðinni má bruna niður tveggja kílómetra leið í fjölbreyttu umhverfi. Ljósmynd: Skógræktin HallormsstaðÞað sama má segja um fjallahjólaleiðina í Hallormsstaðaskógi sem líka er hægt að finna á Wikiloc. Hún er rúmlega fimm kílómetra löng og byrjar við Hallormsstaðaskóla rétt ofan við ísbúðina sem allir sjá sem fara um skóginn. Hjólað er upp í Bjargselsbotna og þaðan liggur skemmtileg leið niður á við, um tveggja kílómetra fjallahjólabrun í fjölbreyttu landslagi með fallegu útsýni yfir Lagarfljót og Fljótsdalshérað. Þegar komið er niður liggur leiðin um skóg til baka að Hallormsstaðaskóla. Þetta er skemmtileg leið og flestum fær sem hafa gaman af léttu fjallahjólabrölti en þó ekki fyrir óvana. Miðlungs erfið leið.

Bjargið skóginum!

Síðast en ekki síst ber að nefna skemmtilegan ævintýraleik fyrir fjölskyldur sem bryddað hefur verið upp í Hallormsstaðaskógi. Leikurinn er reyndar einn þriggja ratleikja sem ferðaþjónustuaðilar við Lagarfljót bjóða upp á og skoða má á myndinni hér að neðan. Í skógarævintýrinu á Hallormsstað þarf Þór skógarvörður á hjálp að halda því óvættir eru komnar á kreik í skóginum sem brjóta tré og seiða til sín menn og dýr. Gömul galdraþula sem nota má til að svæfa verurnar er týnd og verkefnið er að finna alla staðina á kortinu til að ljúka leiknum og þar með að bjarga skóginum. Auðvelt er að hlaða niður appinu Turfhunt í símann, skanna kóðann að leiknum og byrja leikinn sem fer fram á svæðinu milli tjaldsvæðanna í Atlavík og Höfðavík.

Þrír ævintýraleikir fyrir fjölskyldur