Asparglytta er skaðvaldur sem nú dreifist hratt um landið. Gott væri að fá upplýsingar um nýja funda…
Asparglytta er skaðvaldur sem nú dreifist hratt um landið. Gott væri að fá upplýsingar um nýja fundarstaði tegundarinnar en einnig skaðvalda á borð við birkikembu og birkiþélu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Líkt og fyrri ár óskar Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, eftir upplýsingum frá landsmönnum um heilsufar skóganna í landinu. Mikilvægast er að fá fregnir af óværu sem vart verður við á trjánum. Slíkar upplýsingar hafa reynst afar vel undanfarin ár til að fylgjast með þróun skaðvalda á trjám.

Fólk er sérstaklega beðið að hafa augun opin fyrir nýjum pestum á hverju svæði fyrir sig. Skaðvaldar eins og asparglytta, birkikemba og birkiþéla virðast vera að dreifa sér hratt um landið um þessar mundir. Einnig væri dýrmætt að fá svar við spurningunni:

„Hvaða skaðvaldar finnst þér vera mest áberandi á trjám í þínum landshluta/svæði í ár?“

Hér að neðan er hlekkur á Excel-skrá sem getur komið að gagni við skráninguna. Í skránni er að finna skaðvaldatöflu til skráningar á þeim skemmdum sem finnast á trjánum. Einnig eru útskýringar sem hjálpa til við að fylla töfluna út (sheet 2) og listi yfir helstu skaðvalda (sheet 3) raðað eftir trjátegundum. Allar viðbótarupplýsingar og hugleiðingar eru líka vel þegnar, jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir þeim á töfluforminu.

Þá er einnig gott ef fólk hefur tök á að senda ljósmyndir með þessum upplýsingum. Þær geta verið mjög gagnlegar til að staðfesta greiningar. Allar myndir eru vistaðar í gagnagrunni þar sem fram kemur hver tók myndina. Skógræktin áskilur sér rétt til að nota innsendar ljósmyndir í fyrirlestrum (þar sem ljósmyndara er getið) en óskað verður  sérstaks leyfis ef ætlunin er að nota þær til birtingar, svo sem í Ársriti Skógræktarinnar eða annarri opinberri birtingu. Fólk er beðið að láta vita ef það óskar þess að myndir séu eingöngu notaðar til upplýsingar en hvergi birtar.

Til aðstoðar við greiningu er hér einnig hlekkur á stutta samantekt með myndum af öllum helstu skordýrum sem valda skaða á trjám hérlendis. Samantektin er að miklu leyti byggð á upplýsingum af „pödduvef“ Náttúrufræðistofnunar sem gott er að skoða til að glöggva sig á hvaða skaðvaldar eru á hverju svæði.

Brynja Hrafnkelsdóttir vistfræðingur, sem heldur utan um skaðvaldamálin hjá Skógræktinni, vill koma þakklæti á framfæri við allt það fólk sem sent hefur upplýsingar um skaðvalda á trjám undanfarin ár með von um góð viðbrögð nú sem fyrr.

Upplýsingar má senda Brynju á netfangið brynja@skogur.is. Einnig má senda bréf á Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, 162 Reykjavík.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson