Evrópulerkifrægarðurinn nýi í landi Tungu við Tumastaði í Fljótshlíð. Ljósmynd: Hrafn Óskarsson
Evrópulerkifrægarðurinn nýi í landi Tungu við Tumastaði í Fljótshlíð. Ljósmynd: Hrafn Óskarsson

Evrópulerki var gróðursett í sumar í nýjan frægarð í landi Tungu við Tumastaði í Fljótshlíð. Í reitnum eru 90 ágrædd tré af 39 klónum evrópulerkis. Með hlýnandi veðurfari gæti evrópulerki orðið hentug tegund til skógræktar á vissum svæðum hérlendis. Fyrstu fræin úr frægarðinum gætu þroskast eftir 10-15 ár.

Ágrædd evrópulerkiplanta komin í jörð í frægarðinum nýja. Efniviðurinn er ættaður úr Ölpunum, frá Noregi og úr fræræktarhúsinu á Vöglum í Fnjóskadal. Ljósmynd: Hrafn ÓskarssonUppistaða trjánna í frægarðinum nýja er af kvæmum úr Alpafjöllunum í Sviss ásamt efniviði sem kenndur er við Sandvika í Noregi. Að auki var notaður evrópulerkiklónn sem ber númerið 8 í fræræktarhúsi Skógræktarinnar í Vaglaskógi þar sem fram fer ræktun á lerkiblendingnum Hrymi. Blendingur sá er afkvæmi úrvalstrjáa rússalerkis og evrópulerkis og klónn númer 8 hefur reynst ein besta ættmóðirin í þeirri ræktun.

Klónarnir í frægarðinn voru valdir úr stórri kvæmatilraun með evrópulerkikvæmum frá 1996-1998, sem Þórarinn Benedikz skógfræðingur stóð fyrir. Tilraunirnar þar sem úrvalið fór fram voru gerðar í Holtsdal á Síðu, á Vöglum Þelamörk og í Höfða á Héraði. Í frægarðinum er því úrvalsefni af evrópulerkitrjám sem þegar hefur fengist reynsla af á Íslandi.

Með hlýnandi loftslagi stækkar það landsvæði á Íslandi sem hentar fyrir evrópulerki á kostnað þess sem hentar fyrir rússalerki. Því er vert að gera tímanlega tilraunir með þann efnivið evrópulerkis sem kann að reynast best hérlendis. Þess er vænst að evrópulerkifrægarðurinn við Tumastaði fari að bera fræ eftir 10-15 ár. Honum er ætlað að mæta eftirspurn framtíðarinnar fyrir fræ af þessum tegundum í íslenskri skógrækt. Spennandi verður að sjá hvernig frægarðurinn þroskast.

Líklegustu notkunarsvæði evrópulerkis hérlendis eru á Suðausturlandi þar sem sumrin eru sérlega löng og veturnir mildir en umhleypingasamir. Evrópulerki þolir umhleypinga betur en rússalerki en þarf talsvert mildara loftslag til að vaxa vel og verða að verðmætu skógartré. Brynjar Skúlason, trjáerfðafræðingur og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, stýrir þessu kynbótastarfi á evrópulerki.

Meðfylgjandi myndir tók Hrafn Óskarsson, ræktunarstjóri á Tumastöðum.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Brynjar Skúlason