Nýbakaðir meistarar og doktor í skógfræði við Lbhí ásamt brautarstjóra. Frá vinstri: Bjarni Diðrik S…
Nýbakaðir meistarar og doktor í skógfræði við Lbhí ásamt brautarstjóra. Frá vinstri: Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor og brautarstjóri skógfræðibrautar, Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir og Ellert Arnar Marísson, meistarar í skógfræði, og Brynja Hrafnkelsdóttir, doktor í skógfræði. Ljósmynd: LbhÍ

Tveir starfsmenn Skógræktarinnar brautskráðust 5. júní frá Landbúnaðarháskóla Íslands með meistarapróf í skógfræði og einn með doktorspróf. Fjórði starfsmaðurinn brautskráðist með B.S.-gráðu í skógfræði og var jafnframt meðal þriggja nemenda sem fengu hæsta einkunn fyrir lokaverkefni hjá skólanum.

Hallur S. Björgvinsson skógræktarráðgjafi var meðal þriggja sem fengu hæsta einkunn fyrir lokaverkefni við LbhÍ að þessu sinni, einkunnina 9,5.Brautskráningin fór fram í Hjálmakletti Borgarnesi og voru brautskráðir 24 nýir búfræðingar en einnig nemendur úr grunn- og framhaldsnámi þeirra greina sem kenndar eru við Landbúnaðarháskólann. Fyrir hæsta einkunn á B.S.-prófi í skógfræði afhenti Bjarni Diðrik Sigurðsson, brautarstjóri skógfræðibrautar, Halli S. Björgvinssyni verðlaun sem Skógræktin gaf. Hallur var jafnframt einn þriggja nemenda sem fengu hæsta einkunn fyrir lokaverkefni við skólann þetta árið, öll með einkunnina 9,5. Hallur starfar sem skógræktarráðgjafi í skógarþjónustu Skógræktarinnar.

Meistaranemarnir tveir sem starfa hjá Skógræktinni og brautskráðust 5. júní eru þau Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir og Elís Arnar Marísson.

Jóhanna rannsakaði notkun aspargræðlinga í nýskógrækt í meistaraverkefni sínu og gerði samanburð á aðferðum, efnivið og landgerðum.

Meistaraverkefni Ellerts Arnars fólst hins vegar í gerð viðarmagnsspár fyrir ræktaða skóga á Vesturlandi.

Jóhanna starfar sem sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar en Ellert Arnar sem skógræktarráðgjafi í skógarþjónustu stofnunarinnar.

Þá lauk Brynja Hrafnkelsdóttir einnig doktorsprófi formlega með brautskráningunni 5. júní. Í doktorsverkefni sínu hefur Brynja undanfarin ár unnið að rannsóknum á samspili milli innlendra beitarskordýra, innfluttra plantna og loftslagsbreytinga á Íslandi. Doktorsvörnin fór fram 2. júní. Brynja starfar sem sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Fagsvið hennar hjá stofnuninni er einkum heilsufar skóga og jarðvegslíffræði. 

Skógræktin óskar öllum þessum starfsmönnum sínum innilega til hamingju með áfangana og fagnar aukinni menntun innan raða stofnunarinnar.

Texti: Pétur Halldórsson