Úr Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Úr Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Hátt í 140 manns eru nú skráð á Fagráðstefnu skógræktar sem hefst á Hótel Hallormsstað á morgun, miðvikudaginn 3. apríl. Loftslagsmál og landnýting eru meginviðfangsefni ráðstefnunnar að þessu sinni og tekur Landgræðslan þátt í ráðstefnuhaldinu. Inngangsfyrirlestur flytur Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.

Fagráðstefna skógræktar er nú haldin í 20. sinn. Fyrst var slík ráðstefna haldin árið 2000 og hefur hún færst frá einum landshluta til annars og verið árlegur viðburður síðan. 

Á síðasta ári fólu stjórnvöld Skógræktinni og Landgræðslunni mikilvægt hlutverk í kolefnisbindingu sem lið í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Með þessu eykst samstarf stofnananna tveggja að mun og því er vel við hæfi að Landgræðslan taki þátt í skipulagningu og framkvæmt Fagráðstefnu skógræktar að þessu sinni. Að venju standa líka að ráðstefnunni Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktarfélag Íslands, Landssamtök skógareigenda og Skógfræðingafélag Íslands.

Yfirskrift ráðstefnunnar er „Öndum léttar – landnotkun og loftslagsmál“. Hún endurspeglar aukna áherslu á kolefnisbindingu með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis og verða fyrirlestrar fyrri dag ráðstefnunnar helgaðir þeim málefnum á einn eða annan hátt. Síðari daginn verður fjallað um fleiri viðfangsefni.

Meðal áhugaverðra atriða á ráðstefnunni má benda á:

  • Hver eru verkefni Loftslagsráðs og hvert er hlutverk landgræðslu og skógræktar í þeim?
  • Hvernig ætla Landgræðslan og Skógræktin að vinna verkefnin sem stjórnvöld hafa falið þeim?
  • Vegur asparskógur á framræstu landi upp losun vegna framræslunnar?
  • Er pöddufaraldur í aðsigi með hlýnandi loftslagi?
  • Hvernig á að skipuleggja aukna skógrækt og landgræðslu?
  • Er vaxandi áhugi meðal þeirra sem losa gróðurhúsalofttegundir að ráðast í mótvægisaðgerðir?
  • Hvað hefði orðið um Þórsmörk ef hún hefði ekki verið friðuð fyrir beit fyrir 100 árum og Skógræktinni falið að vernda birkið og breiða það út?
  • „Ósköp er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám,“ sagði Lilli klifurmús við Mikka ref. En geta menn lært að klifra í trjám á öruggan hátt?

Rit Mógilsár er komið út með útdráttum og stuttgreinum frá fyrirlesurum og höfundum veggspjalda á ráðstefnunni. Ritinu og dagskrá Fagráðstefnu skógræktar má hlaða niður á vefsíðu ráðstefnunnar, skogur.is/fagradstefna2019. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar.

Nánar um Fagráðstefnu

Texti: Pétur Halldórsson