Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Ísland þarf að fjárfesta í skógrækt fyrir tíu milljarða fram til ársins 2025 ef loftslagsmarkmið landsins eiga að nást 2040. Þetta segir Jón Ágúst Þor­steins­son, for­stjóri um­hverf­is­stjórn­un­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Klappa grænna lausna, í viðtali við Morgunblaðið. Jón Ágúst telur með dómi hol­lensks dóm­stóls yfir olíu­fyr­ir­tækinu Shell í síðustu viku hafi al­menn­ing­ur og um­hverf­is­vernd­ar­sam­tök fengið nýtt vopn í hend­urn­ar.

Sautján umhverfisverndarhópar og sautján þúsund almennir borgarar ráku málið gegn Shell. Fyrirtækið var dæmt til minnka út­blást­ur gróður­húsaloft­teg­unda um 45% fyr­ir árið 2035, miðað við út­blástur­inn 2019, „Í staðinn fyr­ir að standa úti á götu og mót­mæla í van­mætti hef ég trú á að dóms­kerfið verði notað í miklu rík­ari mæli í framtíðinni til að þrýsta á um aðgerðir í lofts­lags­mál­um,“ seg­ir Jón Ágúst í samtalinu við Morgunblaðið.

Hann seg­ir að los­un gróður­húsaloft­teg­unda frá Íslandi sé tæp­lega fjórtán milljónir tonna CO2-ígilda. Þar af sé los­un frá landi um 9 milljónir tonna og önn­ur los­un um 5 milljónir tonna. Til að ná kol­efn­is­hlut­leysi 2040 þurfi stór­fellt átak á kom­andi árum bæði í land­bót­um, bind­ingu og sam­drætti í los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Eng­an tíma megi missa í þeim efn­um og fara þurfi í stór­fellt skóg­ræktar­átak til að mark­miðið ná­ist. „Skóg­ræktaráætl­un ger­ir ráð fyr­ir 500 þúsund tonna bind­ingu fyr­ir árið 2040 en í raun þurf­um við að tí­falda það magn þannig að bind­ing­in verði fimm millj­ón­ir tonna árið 2040. Gróður­setja þarf þessi tré fyr­ir árið 2025 því það tek­ur fimmtán ár fyr­ir trén að ná að binda al­menni­lega kolt­ví­sýr­ing. Það þarf að fjár­festa í skóg­rækt fyr­ir tíu millj­arða króna fyr­ir 2025 ef þetta á að nást,“ segir Jón Ágúst.

Frétt: Pétur Halldórsson>