Táknmynd sem sýnir helstu þætti finnsku lífhagkerfisstefnunnar. Tekið af vef Valtioneuvosto, finnska…
Táknmynd sem sýnir helstu þætti finnsku lífhagkerfisstefnunnar. Tekið af vef Valtioneuvosto, finnska stjórnarráðsins

stefna um lífhagkerfið hefur verið samþykkt í Finnlandi og þar er lögð áhersla á að auka þau verðmæti sem verða til í lífhagkerfinu. Þetta sé mikilvægt svo Finnland geti náð því markmiði sínu að verða kolefnishlutlaust árið 2035.

Lífhagkerfið er sérlega mikilvægt fyrir Finna. Árið 2019 nam virðisauki lífhagkerfisins í Finnlandi 26 milljörðum evra sem nemur um þrettán prósentum af heildarvirðisauka landsins á því ári. Lífhagkerfið hangir saman við hringrásarhagkerfið og snýst um sjálfbæra nýtingu auðlinda. Samhliða er hugað að jafnri dreifingu gæðanna fyrir fólkið og jafnframt að því að milda möguleg neikvæð áhrif á þróuninni yfir í lífhagkerfið. Í lífhagkerfinu eru vörur framleiddar úr endurnýjanlegum, náttúrlegum hráefnum með sjálfbærum hætti og þetta krefst nýsköpunar og þrounar. Þjónusta sem byggist á nýtingu náttúrunnar svo sem ferðaþjónusta telst líka til lífhagkerfisins.

Skógarstefna er mikilvægur hluti af þróun lífhagkerfisins í Finnlandi enda eru skógarnir ein af meginauðlindum landsins. Í nýrri stefnu Finnlands um lífhagkerfið er lögð áhersla á fjóra þætti: 1) aukinn virðisauka lífhagkerfisins, 2) sterkan grunn þekkingar og tækni, 3) gagnsemi og sjálfbærni lífrænna hráefna og vistkerfisþjónustu. Auka má virðisaukann með því að þróa ný hráefni, nýjar framleiðsluaðferðir, vörur og þjónustu, auka þar með verðmæti þessara þátta, auka framleiðni og innleiða ýmsar aðferðir hringrásarhagkerfisins. Finnar sjá mikil tækifæri í skógargeiranum, matvæla- og orkuframleiðslu, lyfjaiðnaði, efna- og vefnaðarvörum, neysluvatni, fiskiðnaði, fiskeldi, ferðaþjónustu og framleiðslu ýmissa náttúruafurða.

Markmið lífhagkerfisstefnu Finna fram til 2035 eru:

  • tvöfalda virðisauka lífhagkerfisins
  • þróa samkeppnishæfar og framsæknar lífhagkerfislausnir við heimsvandamálum
  • þróa starfsemi sem ýtir undir umskipti á bæði innanlandsmarkaði og alþjóðamarkaði enda stuðli það að velsæld um allt Finnland
  • auka skynsamlega nýtingu og endurvinnslu hráefna og hliðar- eða aukaafurða
  • draga úr þörf fyrir jarðefnaeldsneyti og önnur einstefnuhráefni
  • tryggja sjálfbærni vistkerfa, félagslegt réttlæti, mátt endurnýjanlegra auðlinda til að endurnýjast og styrkja almenna samkeppnishæfni lífhagkerfisins
  • Bæta og endurmóta tæknilega innviði

Áhersla er lögð á rannsóknir, þróun og nýsköpun í þessari vinnu og að búinn sé til jarðvegur fyrir framsækin nýsköpunar- og tilraunaverkefni ásamt því að styðja nýsköpunarfyrirtæki fyrstu skrefin í fjöldaframleiðslu. Nokkur finnsk ráðuneyti taka þátt í þessari vinnu en svo er einnig hvatt til þess að mótuð sé stefna um þessi mál á sviði landshluta og sveitarfélaga.

Texti: Pétur Halldórsson