Ljósmynd: Hótel Geysir
Ljósmynd: Hótel Geysir

Ákveðið hefur verið að aflýsa Fagráðstefnu skógræktar 2020 sem ráðgerð hafði verið í októbermánuði á Hótel Geysi í Haukadal. Stefnt er að því að Fagráðstefna 2021 verði haldin á sama stað 6.-8. apríl 2021 með fyrirvara um breytingar.

Efnt hafði verið til samstarfs við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um Fagráðstefnu 2020. Afurða- og markaðsmál áttu að vera meginviðfangsefni eða þema ráðstefnunnar undir yfirskriftinni „Grænir sprotar og nýsköpun“.  Ekki hefur verið ákveðið hvort sama þema verður á ráðstefnunni 2021. Í ljósi þeirra breytinga sem fram undan eru á fyrirkomulagi nýsköpunarmála hjá hinu opinbera er a.m.k. ljóst að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður ekki með í núverandi mynd því ákveðið hefur verið að leggja stofnunina niður um áramótin. Það breytir því ekki að nýsköpun á sviði skógræktar og skógarnytja er mikilvægt málefni sem vert er að gefa gaum.

Rætt hefur verið um að efna mætti til fræðslufunda á vefnum með reglubundnum hætti á komandi vetri og þar koma erindi um nýsköpun og skógrækt vel til greina. Nánar verður tilkynnt um slíkt síðar ef af verður.

Vonandi líður veirufaraldurinn sem allt hefur sett úr skorðum á árinu fljótlega hjá með þeim samkomutakmörkunum sem honum hafa fylgt og Fagráðstefna 2021 getur farið fram með eðlilegum hætti í apríl. Að venju verður sú ráðstefna haldin í samstarfi Skógræktarinnar,  Landssamtaka skógareigenda, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands og Skógfræðingafélags Íslands.

Texti: Pétur Halldórsson