Halldór Þorgeirsson flytur inngangserindi sitt á Fagráðstefnu skógræktar á Hallormsstað. Ljósmynd: P…
Halldór Þorgeirsson flytur inngangserindi sitt á Fagráðstefnu skógræktar á Hallormsstað. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Loftslagsráð leggur áherslu á endurheimt vistkerfa skóga, votlendis, þurrlendis og sjálfbæra beitarnýtingu. Marka þarf skýra sýn á þátt lífríkis og vistkerfa á landi í að þróa lágkolefnissamfélag framtíðarinnar og skapa önnur lífsgæði.

Þetta kom fram í inngangserindi Halldórs Þorgeirssonar, formanns Loftslagsráðs, á Fagráðstefnu skógræktar sem hófst á Hótel Hallormsstað í morgun.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri setti tuttugustu Fagráðstefnu skógræktar og því næst tók Halldór til máls. Erindi hans bar yfirskriftina Kolefnispólitíkin: Lífríki á landi og mannfólkið. Halldór lagði áherslu á að það væru ekki aðskildir hlutir að stöðva röskun loftslagsins og að ná kolefnisjafnvægi. Þetta væri einn og sami hluturinn og þannig þyrfti að tala um þessi mál. Hann bað fólk að hætta að tala um hlýnun jarðar því þótt Íslendingum þætti kannski notalegt að hér hlýnaði svolítið væri málið alvarlegt, röskun á kerfum jarðarinnar og breytingar á loftslagi.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri setur Fagráðstefnu 2019. Um 140 manns eru skráð á ráðstefnuna. Ljósmynd: Pétur HalldórssonHalldór talaði um að nú væri aukinn skilningur á mikilvægi lands í loftslagssamhenginu. Nú væri að verða umbylting en ekki einungis fínstilling á því sem gert hefði verið og rætt fram að þessu. Lausnir sem tengjast náttúrunni verða til dæmis eitt  af sex áherslusviðum á leiðtogafundi aðalritara Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem haldinn verður 23. setptember. Sem annað dæmi um þessa umbyltingu nefndi Halldór að fyrirsjáanleg væri aukin eftirspurn eftir kolefnisjöfnun, ekki síst vegna millilandaflugs, og þar koma greinar sem snerta landbætur og landnýtingu til skjalanna.

Í tengslum við starfið að kolefnisjöfnun Íslands segir Halldór að mikil þörf sé á rannsóknum á orsakasamhengi kolefnisforða og kolefnisflæðis. Skilvirkra leiða við endurheimt vistkerfa sé þörf. Hann segir að vísindaleg gangrýni og umræða meðal sérfæðinga sé nauðsynleg og hún eigi að fara fram beint þeirra á milli. Þá ræddi hann líka um að samhæfa þyrfti aðgerðir og flétta saman. Ekkert væri til dæmis fallegra en votlendi sem væri umkringt skógi.

Að fengnu áliti og niðurstöðum sérfræðinga er stjórnvalda að skera úr um hvaða aðgerðir og leiðir verða notaðar í uppgjöri gagnvart alþjóðastofnunum, segir Halldór. Hins vegar megum við ekki láta það hindra okkur að ekki verði tekið fullt tillit til bindingar með landbótaaðgerðum fyrr en eftir 2030. Þegar þarf að hefjast handa til að nálgast kolefnishlutleysi.

Halldór brýnir stofnanir eins og Skógræktina og Landgræðsluna að leggja áherslu á gagnsæi svo vel sjáist hvernig þeir fjármunir sem hafa verið lagðir í aðgerðir hafi verið nýttir. Loftslagsráð leggur áherslu á endurheimt vistkerfa skóga, votlendis og þurrlendis og sjálfbæra beitarnýtingu.  Ráðið hvetur til þjóðarsamstöðu um að láta ekki staðar numið við að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar miðað við 2030.

Í lok erindis síns ræddi Halldór um lífríkið í lágkolefnissamfélagi morgundagsins. Þar þyrfti að marka skýra sýn á þátt lífríkis og viskerfa á landi í að þróa lágkolefnissamfélagið og skapa önnur lífsgæði.

Texti: Pétur Halldórsson