Þessa mynd tók Hreinn Óskarsson af fáki sínum og fallegu umhverfi sem hann nýtur á leið sinni til vi…
Þessa mynd tók Hreinn Óskarsson af fáki sínum og fallegu umhverfi sem hann nýtur á leið sinni til vinnu á Selfossi

Í lok evrópskrar samgönguviku birtast hér nokkrar myndir sem starfsmenn tóku á leið sinni til vinnu gangandi eða hjólandi í evrópskri samgönguviku sem nú er að ljúka. Auk þess að stuðla að því að dregið verði úr akstri vill Skógræktin endurnýja bíla stofnunarinnar með rafbílum og öðrum visthæfum bílum.

Hvatt er til þess meðal starfsfólks Skógræktarinnar að það gangi, hjóli eða noti almenningssamgöngur á leið til og frá vinnu. Starfstöðvar stofnunarinnar hafa náð fyrsta græna skrefinu í ríkisrekstri og þar er til dæmis tekið tillit til þess að starfsfólk geti gert samgöngusamning og skuldbundið sig til að ferðast á visthæfan hátt til og frá vinnu. Þegar hafa nokkrir starfsmenn tekið skref í þessa átt og nokkrir starfsmenn Skógræktarinnar hafa einnig keypt rafbíla eða metanbíla.

En Skógræktin er dreifð stofnun um landið og margir þurfa að aka langar leiðir. Sömuleiðis krefst starfsemi stofnunarinnar mikils aksturs. Hingað til hefur verið lítið um visthæfa bíla sem henta til þeirra starfa sem unnin eru hjá Skógræktinni. Þar er átt við jeppa og öfluga pallbíla. Nú hillir undir að helstu framleiðendur setji á markað blendingsbíla og jafnvel hreina rafbíla af þeim toga. Þá eru spennandi sprotafyrirtæki einnig að þróa slíka bíla og skal bent á þrjú forvitnileg dæmi hér.

Í fyrsta lagi er bandaríska fyrirtækið  Workhorse sem þegar er farið að taka við pöntunum í blendingspallbíl. Þann bíl verður hægt að aka yfir 100 kílómetra á rafmagni en síðan tekur bensínvél við sem framleiðir inn á geymana. Á honum verður líka rafmagnsúttak sem mætti t.d. nýta til að hlaða keðjusagir. Rivian heitir annað bandarískt fyrirtæki sem hyggst setja á markað hreina rafbíla árið 2020, annars vegar sjö manna jeppa og hins vegar fimm manna pallbíl með aldrifi. Loks er kanadískt fyrirtæki sem leitar nú fjárfesta til að framleiða rafknúinn pallbíl sem kallast Atlis.

Það eru því spennandi tímar fram undan. En það sem er hægt að gera strax er að aka minna en í staðinn ganga, hjóla, taka strætó eða sameinast í bíla. Myndirnar sem hér fylgja tóku nokkrir starfsmenn Skógræktarinnar á göngu sinni eða hjólreiðum til og frá vinnu í vikunni.

Texti: Pétur Halldórsson