Skógur í íslenskri sveit. Ljósmynd. Pétur Halldórsson
Skógur í íslenskri sveit. Ljósmynd. Pétur Halldórsson

Erfðanefnd landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna sem hafa að markmiði að stuðla að varðveislu og sjálfbærri nýtingu innlendra erfðaauðlinda í landbúnaði. Til slíkra auðlinda teljast bæði villtar innlendar tegundir og efniviður þeirra innfluttu trjátegunda sem hér eru ræktaðar. Umsóknarfrestur er til 28. apríl.

Meginhlutverk erfðanefndar landbúnaðarins er að vinna að varðveislu og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Í því skyni hefur nefndin ákveðið að verja fjármunum í að styrkja einstök afmörkuð verkefni sem falla að því hlutverki. Vísað er til stefnumörkunaráætlunar erfðanefndar varðandi nánari áherslur nefndarinnar, sjá vefsíðu nefndarinnar; www.agrogen.is

Lögð er áhersla á að styrkja verkefni á eftirfarandi sviðum:

  • rannsóknir er lúta að varðveislu og viðhaldi á erfðaauðlindum í landbúnaði
  • lokaverkefni til prófs á háskólastigi er tengjast varðveislu og nýtingu á erfðaauðlindum í landbúnaði
  • aðgerðir sem stuðla að sjálfbærri varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði
  • kynning og fræðsla fyrir almenning um erfðaauðlindir í landbúnaði og gildi þeirra

Á vef erfðanefndarinnar er fjallað um þá fjóra meginflokka lífvera sem nefndin fjallar um. Þær eru búfé, ferskvatnsfiskar, plöntur og skógur. Fram kemur á undirsíðunni um skógrækt að til tegunda íslenskra trjáplantna teljist birki, víðitegundir, reyniviður, blæösp, rússalerki, sitkagreni, alaskaösp, stafafura, aðrar trjátegundir, garð- og landslagsplöntur.

Einstaklingar og félagasamtök eru hvött til að sækja um styrki til verkefna sem hafa það að markmiði að stuðla að varðveislu og sjálfbærri nýtingu innlendra erfðaauðlinda í landbúnaði. Að jafnaði verða veittir styrkir á bilinu kr. 200 þúsund kr. upp í eina milljón króna. Sérstök eyðublöð má finna á vef erfðanefndar, www.agrogen.is.

Umsóknum skal skilað til Birnu Kristínar Baldursdóttur, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hvanneyri, 311 Borgarnes (birna@lbhi.is) fyrir 28. apríl 2022.