Á degi jarðar er gott að vinna að grisjun í ungum skógum. Það býr í haginn fyrir framtíðina, eykur v…
Á degi jarðar er gott að vinna að grisjun í ungum skógum. Það býr í haginn fyrir framtíðina, eykur verðmæti og viðargæði. Unnið var að grisjun á Silfrastöðum í Skagafirði í dag og þá smellti Johan Holst, skógarbóndi og skógræktarráðgjafi, af þessari mynd

Starfsfólk Skógræktarinnar fagnar degi jarðar í dag með margvíslegum verkefnum í skógunum og meðal annars eru gróðursettar trjáplöntur á stöku stað eða unnið að stiklingarækt og annarri fjölgun efniviðar til skógræktar, grisjun, viðarvinnslu og fleira.

Dagur jarðar er alþjóðlegt samstarfsnet sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi þess að vernda og efla náttúruna á jörðinni. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1970 og Sameinuðu þjóðirnar hafa meðal annars haldið viðburði á þessum degi um árabil. Á þessu ári er áhersla dagsins á að gripið verði til aðgerða til að búa jarðarbúum betri framtíð. Sögulegt er einnig í dag að viðburðir eru að miklu leyti rafrænir vegna kórónaveirufaraldursins. Skoða má þetta nánar á vefnum earthday.org.

Skógræktin hvetur starfsfólk sitt til að gróðursetja tré í dag og senda myndir til birtingar á skogur.is. Einnig má senda myndir af ýmsu öðru úr skógræktarstarfinu, hvort sem það tengist plöntuuppeldi með sáningu eða stiklingarækt, grisjun eða annarri umhirðu skóga, rannsóknum, ráðgjöf eða öðru í starfi Skógræktarinnar. Myndirnar verða birtar í myndasafninu hér fyrir neðan og bætast við í dag og næstu daga eftir því sem þær berast.

#dagurjarðar #earthday20 #earthday2020

Texti: Pétur Halldórsson