Sjaldséð blómgun á blæösp á Íslandi á tré við Laugavelli 11 á Egilsstöðum. Ljósmynd: Þröstur Eystein…
Sjaldséð blómgun á blæösp á Íslandi á tré við Laugavelli 11 á Egilsstöðum. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Sigrún Þöll Hauksdóttir Kjerúlf, kennari á Egilsstöðum, birti föstudaginn 22. apríl myndir af fallega blómstrandi tré á Facebook-síðunni Ræktaðu garðinn þinn – garðyrkjuráðgjöf. Myndir af blómstrandi trjám eru algengar á síðunni, en hér var um blæösp að ræða og er blómgun hennar hér á landi nánast óþekkt fyrirbæri.

Krónan á blæöspinni við Laugavelli á Egilsstöðum tekur sig vel út með glæsilegum hangandi karlreklum sínum. Myndina tók Þröstur Eysteinsson 24. apríl 2022.Þessi atburður var svo merkilegur að skógræktarstjóri fór á stúfana og skoðaði blæaspir í trjásafninu á Hallormsstað og þær villtu í Egilsstaðaskógi til að kanna hvort þær blómstruðu. Svo reyndist ekki vera. Sigrún bauð honum svo að koma og skoða öspina í garði foreldra sinna á Egilsstöðum, þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar 24. apríl. Öspin reyndist vera karlkyns, sem sást á því að frjóduft hristist úr mjúkum reklunum í blænum. Var öspin keypt á sínum tíma í gróðrarstöð, annað hvort í Kjarna eða á Vöglum, og gróðursett í garðinn sunnan við húsið árið 1982. Þar hefur hún dafnað vel síðan.

Blómgun villtrar blæaspar hefur aldrei verið skráð hér á landi og aðeins tvisvar áður hjá ræktaðri blæösp í görðum: Fyrst gerðist þetta á Hallbjarnarstöðum í Reykjadal árið 1956 og svo við Oddeyrargötu 36 á Akureyri þar sem Jóhann Pálsson garðyrkjustjóri sá öspina blómstra einhvern tímann á Akureyrarárum sínum, 1978-1985. Um þetta má lesa í Skógræktarritinu 2002, 2. tbl.: Íslensku skógartrén 2 Blæösp (Populus tremula L.) eftir Sigurð Blöndal. Í bæði skiptin er vitað að um var að ræða klóninn frá Garði í Fnjóskadal, enda var hún sú fyrsta sem uppgötvaðist á Íslandi og sú sem langoftast hefur verið fjölgað með rótarskotum og höfð til sölu í gróðrarstöðvum. Þar sem öspin sem blómstrar nú er karlkyns eins og hinar og var keypt í gróðrarstöð á sínum tíma er mjög sennilegt að hér sé einnig um sama klóninn að ræða – Garðsöspina.

Blómgun trjáa stjórnast að mestu leyti af hitafari sumarsins áður. Blæösp er aðlöguð mun hlýrri sumrum en Ísland hefur yfirleitt að bjóða og nær því (nánast) aldrei að blómstra. Í fyrra var óvenjuhlýtt og sólríkt á Austurlandi, líkt og var 1955 og (sennilega) 1980 á Norðurlandi. Það dugði samt ekki fyrir blæaspir á Héraði yfirleitt. Í viðbót þurfti vaxtarstað sunnan við hús í skjólgóðu umhverfi og fullri sól.

Það er sem sagt staðfest að blæösp hefur nú náð að blómstra þrisvar á Íslandi svo vitað sé. Skógræktin þakkar Sigrúnu Þöll fyrir eftirtektarsemina og fyrir að láta vita.

Uppfærsla 27. apríl

Fundin er einnig blæösp í blóma við Andapollinn á Akureyri og er það þar með fjórða tréð af tegundinni sem vitað er að hafi blómgast. Gaman væri að frétta af því ef fleiri blæaspir standa í blóma þessa dagana á landinu.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Vinnsla og viðbót: Pétur Halldórsson