Rannsóknir og aðferðir í skógarvistfræði eru viðfangsefni áhugaverðrar ráðstefnu sem haldin verður  í Kórnik í Póllandi dagana 18.-20. maí í vor. Í vinnusmiðjum verður fjallað um svepprótasmit, vefjarækt eða fjölgun plantna í glösum, stofnerfðafræði skógartrjáa og greiningu trjákenndra plöntutegunda.

Alþjóðleg yfirskrift ráðstefnunnar er „Science and Practice in Forest Ecology“ og að henni stendur trjáfræðistofnun pólsku vísindaakademíunnar, Instytut Dendrologii PAN.

Í tilkynningu um ráðstefnuna á vef stofnunarinnar er vísað til þess að áhrifa loftslagsröskunar sé þegar farið að gæta, ekki einungis á trjátegundum sem eru mikilvæg fyrir vistkerfi og efnahag heldur einnig öðrum tegundum plantna, sveppa og dýra. Ráðstefnan í vor verði vettvangur til umræðna á vísindalegum grunni um leið og bornar verði á borð og ræddar nýjustu rannsóknarniðurstöður á sviði skógarvistfræði, svo sem um breytingar á skógarvistkerfum, hvort sem þær eru staðbundnar, svæðisbundnar eða á heimsvísu.

Ráðstefnan er einkum ætluð fólki sem stundar eða tengist rannsóknum í skógvísindum, þróunarlíffræði, vistfræðilegum ferlum, sveppafræði, æxlunarlíffræði, innrásarlíffræði og erðfafræði verndunar. Tækifæri gefst til að kynna rannsóknarniðurstöður og ræða þýðingu þeirra fyrir sjálfbæra skógrækt og náttúrvernd. Þátttakendur hafa ekki eingöngu færi á að prjóna við þekkingu sína eða deila reynslu og hugmyndum heldur einnig að þróa áfram færni sína í rannsóknaraðferðum undir leiðsögn reyndra vísindamanna og sérfræðinga í vinnusmiðjum. Ráðstefnan auðveldar fólki líka að móta rannsóknarstarfið fram undan og markmiðin í rannsóknunum, skipuleggja þverfaglegt rannsóknarstarf og koma á samstarfi við rannsóknarfólk frá ólíkum vísindastofnunum.

Ráðstefnan byggist á sjö inngangsfyrirlestrum sem allir þátttakendur sækja fyrsta dag ráðstefnunnar. Þessi erindi flytja vísindamenn úr röðum gestgjafanna hjá trjástofnun pólsku vísindaakademíunnar í Kórnik. Fjallað verður um málefni sem snerta skógarvistkerfi, þau fjölbreyttu tengsl sem samlífi lífvera myndar, líffræðilegan grundvöll fyrir tímgun og dreifingu plantna ásamt stofnerfðafræði skógartrjáa.

Á öðrum degi ráðstefnunnar verða fluttir fyrirlestrar sem valdir verða úr innsendum útdráttum þátttakenda.

Vinnusmiðjur verða svo skipulagðar þriðja og síðasta daginn í rannsóknarbyggingum trjástofnunarinnar í Kórnik. Þær verða á fjórum þemasviðum:

  • Svepprót - frá gróhirslu til raðgreiningar DNA
  • Vefjarækt eða fjölgun plantna í glösum (in vitro)
  • Stofnerfðafræði skógartrjáa
  • Greining trjákenndra plöntutegunda

 

Texti: Pétur Halldórsson