Ásýnd Expobiomasa-sýningarinnar 2019
Ásýnd Expobiomasa-sýningarinnar 2019

Lífmassakaupstefnan Expobiomasa verður haldin í Valladolid á Spáni 24.-26. september. Kaupstefnan er mikilvægt tækifæri til að fræðast og mynda tengsl við fólk, fyrirtæki og stofnanir sem á einhvern hátt tengjast ræktun, úrvinnslu og verslun með lífmassa, meðal annars timbur.

Lífmassi úr skógi og ýmislegt sem honum tengist verður áberandi á kaupstefnunni og meðal sýnenda verða margir af helstu framleiðendum tækja og tóla sem tengjast skógarhöggi, úrvinnslu timburs og nýtingu þess. Til dæmis verða 25 finnsk fyrirtæki með bása á sýningunni enda Finnar mjög framarlega á þessu sviði. Sem kunnugt er líta menn æ meira til skógarlífmassa sem endurnýjanlegrar auðlindar til ýmissa nota. Á vef Expobiomasa er ril dæmis bent á hvernig nýting á skógarlífmassa getur verið sem vítamínsprauta fyrir skógana. Viðarkyndingar í stærri sem smærri byggingar ryðja sér meir og meir til rúms og á kaupstefnunni verða til sýnis ýmsar gerðir viðarkynditækja eða kynditækja sem nýta viðarkurl og viðarköggla til brennslu.

Á vef kaupstefnunnar segir að Expobiomasa sé einstakur viðburður þar sem gestir og sýnendur geti myndað meiri tengsl á þremur dögum en þeir gætu ella gert á heilu ári. Þetta er viðburður þar sem fagfólk er í meirihluta og þrír af hverjum fjórum gestum vinna þegar að eða tengjast lífmassaverkefnum að sögn skipuleggjenda. Aðrir gestir sækja kaupstefnuna í leit að vörum og þjónustu eða til að knýja dyra í þessari atvinnugrein.

Sýnendur á kaupstefnunni verða yfir fimm hundruð talsins frá um það bil þrjátíu ríkjum og búist er við um 15.000 gestum þá þrjá daga sem kaupstefnan stendur yfir. Valladolid er höfuðborg Kastilíuhéraðs á Norður-Spáni, rúmum 200 kílómetrum norðan við Madríd.

Texti: Pétur Halldórsson