Tilraunaræktun með sitkagreni í Trysil í Noregi 1971. Ljósmynd af vef NordGen
Tilraunaræktun með sitkagreni í Trysil í Noregi 1971. Ljósmynd af vef NordGen
English

Norrænt samstarf um skógarmál fagnar hálfrar aldar afmæli 16. september. Þetta samstarf fer fram undir merkjum skógasviðs NordGen og á afmælisdeginum er öllum boðið að taka þátt í rafrænni afmælishátíð þar sem sagan verður rifjuð upp, sagt frá vísindauppgötvunum og auðvitað skálað!

Hátíðin fer fram í myndfjarfundakerfi frá Ási í Noregi og þar í gegn verða sendar heillaóskir frá fulltrúum hvaðanæva af Norðurlöndunum, þar á meðal frá Íslandi, þar sem Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, flytur hamingjuóskir og tíundar mikilvægi þessa samstarfs fyrir skógræktarstarfið á Íslandi. Litið verður yfir söguna þessi fimmtíu ár sem liðin eru frá því að samstarfið hófst og efnt til umræðu um hvar við stöndum nú og hvað framtíðin beri í skauti sér.

  • HVAÐ: NordGen Forest verður fimmtugt
  • HVENÆR: 16. SEPTEMBER kl. 10-11 að íslenskum tíma
  • HVAR: Á vefnum! Skráðir þátttakendur fá sendan hlekk
  • FYRIR HVERN: Allt fólk sem hefur áhuga á norrænu skógarsamstarfi
  • HVERNIG: Skráðu þig hér á vef Nordgen fyrir 14. september eða með hnappnum hér fyrir neðan

SKRÁNING

Texti: Pétur Halldórsson