Vönduð jarðvinnsla í Árdal Kelduhverfi myndar sérstætt mynstur úr lofti. Ljósmynd: Guðríður Baldvins…
Vönduð jarðvinnsla í Árdal Kelduhverfi myndar sérstætt mynstur úr lofti. Ljósmynd: Guðríður Baldvinsdóttir

Í mörg horn er að líta hjá skógræktarráðgjöfum Skógræktarinnar á vorin og í byrjun sumars. Ráðgjafarnir hafa verið á þönum undanfarnar vikur að sinna ýmsum verkum, meðal annars sem snerta jarðvinnslu og annan undirbúning skógræktar en líka úttektum á gróðursetningum og fleiri þáttum. Hér eru svipmyndir frá Tjörnesi og úr Kelduhverfi.

Skógræktarsvæði á Tjörnesi. Í baksýn Lundey á Skjálfanda og Kinnarfjöll fjærTilgangur jarðvinnslu í nýskógræktarverkefnum er að minnka samkeppni frá öðrum gróðri, örva næringarefnahringrás jarðvegsins, búa til skjólgott plöntuset (nærskjól), flýta fyrir þiðnun jarðvegs, hækka hitastig jarðvegs og auðvelda gróðursetningu. Rannsóknir og reynsla síðustu ára sýnir ótvírætt að í skógrækt er jarðvinnsla nauðsynleg til tryggja góðan vöxt og viðgang trjáplantna. Það sem átt er við með jarðvinnslu er þegar svarðgróðurinn (gras og annar gróður) er fjarlægður, sem annars tekur næringu og vatn frá nýgróðursettum plöntum auk þess að skyggja á þær og kæfa.

Tilgangur jarðvinnslu getur verið mismunandi eftir því hver landgerðin er. Í gróskumiklu landi er jarðvinnsla nauðsynleg til að halda
aftur af samkeppnisgróðri nógu lengi til að trjáplöntur komist fljótt og örugglega í fullan vöxt en kafni ekki í öðrum gróðri. Grösugt land
frá náttúrunnar hendi er frjótt og þar mun trjágróður vaxa best þegar fram líða stundir.

Loftmyndin hér að ofan er tekin yfir jarðunnið svæði á skógarjörðinni Árdal í Kelduhverfi. Guðríður Baldvinsdóttir skógræktarráðgjafi sendi myndina og líka tvær til viðbótar af Tjörnesi þar sem hún var við gæðaúttektir á nýjum gróðursetningum í síðustu viku.

Nánar má fræðast um nýskógrækt í bæklingnum Fræðsluefni um skógrækt.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Guðríður Baldvinsdóttir