Sænski skógfræðineminn Britta Sterner við hæsta tré Vestfjarðakjálkans að lokinni mælingu 12. júní 2…
Sænski skógfræðineminn Britta Sterner við hæsta tré Vestfjarðakjálkans að lokinni mælingu 12. júní 2019. Ljósmynd: Björn Traustason

Sitkagrenitré á Barmahlíð Reykhólahreppi mældist 20,3 metrar á hæð nú í vikunni. Þetta er fyrsta tréð á Vestfjarðakjálkanum sem vitað er að náð hafi tuttugu metra hæð. Alaskaösp í Haukadal Dýra­firði vantar rúmlega hálfan metra til að ná tuttugu metrum.

Íslensk skógarúttekt er nú farin af stað í árlega mælingaleiðangra sína um landið til að safna gögnum um vöxt og viðgang íslensku skóganna. Úr þessum gögnum eru meðal annars unnar skýrslur um kol­efnis­bind­ingu skóglendis á Íslandi sem sendar eru Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.

Björn Traustason, landfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, hefur verið við mælingar vestur á fjörðum undanfarna daga og með honum sænskur skógfræðinemi, Britta Sterner. Beðið hefur verið eftir því undanfarin ár að fyrsta tréð vestra næði tuttugu metra hæð og litu menn einkum til tveggja staða, Barmahlíðar í Reykhólahreppi og Haukadals í Dýrafirði. Það var því nokkur spenna eftir að sitkagreni mæld­ist 20,06 metrar á Barmahlíð á þriðjudag að vita hvort ösp sem vitað var um í Haukadal myndi reynast enn hærri. Öspin var mæld í gær og þá kom í ljós að hana vantar enn rúman hálfan metra í að verða 20 metra há. Hún mældist 19,44 metrar en þvermál hennar í brjósthæð 36 sentímetrar.

Sitkagrenitréð á Barmahlíð telst nokkuð örugglega vera hæsta tré Vestfjarðakjálkans. Þvermál trésins í brjósthæð 43,6 sentímetrar. Tréð er rúmlega 70 ára gamalt.

Öspin sem hefur undanfarin ár keppt við sitkagrenið á Barmahlíð um að ná 20 metra markinu er hins vegar miklu yngra tré, gróðursett 1974. Verði þessi tvö tré ekki fyrir áföllum næstu árin má gera ráð fyrir að þau haldi áfram að keppa um titilinn hæsta tré Vestfjarða og verður spennandi að fylgjast með því. Keppnin hefur lengi verið spennandi eins og sjá má m.a. af fréttum sem birtust á  Reykhólavefnum árið 2015. Þar er líka vísað í frétt á vestfirska fréttavefnum bb.is sem birtist í gær og orðum Jóns Atla Játvarðarsonar sem hefur heimildir fyrir því hvenær sitkagrenið á Barmahlíð var gróðursett. Jón Atli skrifar:

„Gaman að fá þessa mælingu. Elstu trén á Barmahlíðinni og þar með þetta efnismikla tré voru gróðursett 1948. Þetta voru frekar fá tré og var vandað sérstaklega til gróðursetningar og meðal annars komið með skít í hestakerru og blandað samanvið moldina í gröfnum holum. Þessu lýsti Ragnar Sveinsson á Hof­stöð­um fyrir mér og eitthvað fékk ég líka af frásögnum hjá Jens Guðmundssyni á Reykhólum. Komu þeir að þessari gróðursetningu ásamt Ingibjörgu Árnadóttur á Miðhúsum og fleirum.“

Meðfylgjandi myndir tóku þau Björn Traustason og Britta Steiner við sitkagrenið á Barmahlíð.

Texti: Pétur Halldórsson