Jónatan Garðarsson er nýr formaður Skógræktarfélags Íslands

Í Laugardagsblaði Morgunblaðsins var rætt við Jónatan Garðarsson sem kjörinn var formaður Skógræktarfélags Íslands á aðal­fundi félagsins 27. ágúst. Fundurinn var haldinn á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði.

Í viðtalinu segir Jónatan m.a. brýnt að nýr samningur verði gerður um Landgræðslu­skóga og gróðursetning tvöfölduð frá nú­verandi samningi sem rennur út á næsta ári.

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður ræddi við Jónatan og viðtalið er á þessa leið:

„Það eru gömul sannindi og ný að skógur hefur góð áhrif á andlega og líkamlega líðan. Þetta vissu forfeður okkar í Evrópu sem reistu heilsuhæli á skógarsvæðum. Hér heima vitum við að gönguferðir á skógarstígum eru heilsubót því þar er hægt að stunda hreyfingu í sólskini, rigningu jafnt sem snjó því skógurinn skýlir, eyðir vindsveipum og hefur jafnvel róandi áhrif,“ segir Jónatan Garðarsson í Hafnarfirði sem á dögunum var kjörinn formaður Skógræktarfélags Íslands. Við því embætti tók hann af Magnúsi Gunnarssyni sem gegnt hafði formennskunni í tíu ár.

Endurheimta gæðin

Þjóðin þekkir Jónatan Garðarsson sennilega best sem útvarps- og sjónvarpsmann sem fjallað hefur af góðri þekkingu um tónlist, söguleg efni og menningu. Og á sinn hátt er starf skógræktarfélaganna líka menning; það er skapa skilyrði fyrir fallega gróðurreiti sem munu nýtast komandi kynslóðum. Boðskapurinn sem í þessu felst er sá að það sé dyggð að rækta garðinn sinn, enda þó hagnýtt og efnahagslegt gildi skógræktar komi sterkar inn nú en áður.

„Allt skógræktarfólk tengist á einn eða annan hátt í gegnum áhugamálið. Skógræktarfélögin spruttu að vissu leyti upp úr ungmennafélögunum og hugsjónum þeirra. Sjálfboðaliðastarf hefur líka alltaf verið rauði þráður­inn í verkefnum beggja þessara hreyfinga. Félögin eru í tengslum við nærumhverfi sitt félagasamtök og skóla enda hafa kennarar oft verið í forystu skógræktarfélaga. Áður fyrr nýttu margir kennarar sumarfrí sín til að stunda gróðursetningu. Þeir ræktuðu landið og unnu með nemendum að því að endurheimta landsins gæði með trjárækt og landgræðslu.“

Skógræktarfélag Íslands var stofnað á Þingvöllum árið 1930 og mörg héraðsfélög í kjölfar þess. Nokkur félög byggja á enn eldri grunni því ungmennafélögin hófu víða skógrækt rétt upp úr aldamótunum 1900. Þá höfðu Danir og Norðmenn sem störfuðu á Íslandi snemma á 20. öldinni mikil áhrif og voru á margan hátt brautryðj­endur í íslensku skógræktarstarfi. Fjöldi bænda hefur sinnt skógrækt, bæði í sínu héraðsfélagi og seinna með nytjaskógrækt sem þó er ekki beint markmið skógræktarfélaganna. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að græða landið og rækta yndis- og útivistarskóga sem gagnast landsmönnum á margvíslegan hátt.

Gróðurríkið yrði sterkara

Í ályktunum aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var í Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði í ágúst­lok er tæpt á ýmsu. Þar er meðal annars skorað á umhverfisráðherra að gera tíu ára samning um áfram­hald landgræðsluskóga, en gildandi samningur rennur út á næsta ári. Markmið nýs samnings skuli vera að auka gróðursetningu úr 600 þúsund í 1,2 milljónir plantna á ári, það er fjölbreytt úrval lauf- og barrtrjáa til þess að skapa fjölbreytt vistkerfi sem geti tekist á við breytingar á loftslagi og hlýnandi veðurfar.

Einnig eru stjórnvöld hvött til þess að efla bændaskógrækt, sem Jónatan segir eina af mörgum leiðum til að viðhalda byggð í landinu. Á Héraði hafi bændur hafið skipulaga skógrækt í kringum 1990 þegar harðnaði á dalnum í þeirra ranni og það hafi breytt miklu þar eystra. Viðarframleiðsla sé nú þegar farin að skila bændum og fleiri nokkru en verði þó ekki umfangsmikill atvinnuvegur fyrr en eitthvað fari að líða á 21. öldina.

„Þegar landgræðsluskógaverkefninu var hleypt af stokkunum árið 1990 voru markmiðin skýr. Hugmyndin var að gróðursetja tré á landi sem var ekki ræktað fyrir eða var örfoka eftir landeyðingu fyrri alda. Ætlunin var að endurheimta íslenska birkiskóga og víðifláka og jafnframt að rækta nýjar tegundir trjáa svo að íslenskt gróður­ríki yrði fjölbreyttara og sterkara en áður. Þetta verkefni fór mjög vel af stað en þetta ræktunarstarf hefur dregist saman á undanförnum árum. Því er brýnt að halda áfram á sömu braut,“ segir Jónatan sem víkur að mikilvægi skógræktar í tengslum viðloftslagsmál.

„Varanleg skógareyðing er talin valda einum sjötta losunar koltvíoxíðs í heiminum. Talið er að skógar

geti bundið varanlega 10% af fyrri losun, sem áætlað er að muni eiga sér stað af mannavöldum á fyrri hluta þessarar aldar. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram á sömu braut og gefa í frekar en hitt og efla skóg­ræktina. Það eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir um ágæti skógræktar og auðvitað þarf að huga að því hvar skógar eru ræktaðir og hvar þeir eiga ekki heima. Skeiðarársandur er svo alveg sérkapítuli því svo virðist sem þar hafi náttúran sjálf tekið í taumana og dreift birkifræi á þessu mikla landflæmi sem óðum er að gróa upp.“

Betra og byggilegra

Hér í Morgunblaðinu á dögunum var vakin athygli á þeim miklu breytingum sem orðið hafa með skógræktar­starfi undanfarinna áratuga, svo sem bændaskógum. Þar má til dæmis nefna uppsveitir Árnessýslu og inn­sveitir á Norður- og Austurlandi sem hafa öðlast nýjan svip með skógum sem eru ræktaður samkvæmt skipu­lagi sveitarfélags og vísra manna ráðum. Um þetta efni segir Jónatan að það segi sig sjálft að skógrækt breyti landinu og þar með veðráttu. Sjálfur vill hann ekki dæma um hvort farið hafið verið of geyst í sakirnar. Því verði þó að halda til haga um ræktunarstarf almennt að víða hafi ræktun gert landið byggilegt bókstaf­lega.

„Á Rangárvöllum og undir Eyjafjöllum eru tún þar sem voru áður svartir sandar. Byggð í Þorlákshöfn og Vík í Mýrdal var lengi í hættu vegna sandfoks af svæðum sem nú eru vel gróin. Sandfok var fastur liður frá Mýrdalssandi og langt austur úr og það kom stundum fyrir í miklum sandstormum að lakkið hreinsaðist af ökutækjum sem voru þar á ferðinni. Fyrir austan og norðan hefur skógrækt víða tekist mjög vel, en gerum okkur grein fyrir því að enn eru ekki nema tæplega 2% landsins skógi vaxin. Það hlutfall þyrfti að vera hærra og því er mikið að vinna í skógrækt, sem gerir landið okkar betra og byggilegra.“

Landið tók stakkaskiptum

„Áhugi minn á skógræktarstarfi vaknaði þegar ég var strákur. Foreldrar mínir byggðu hús í nýju hverfi í Hafnar­firði, Kinnahverfinu, og voru meðal frumbyggja þar. Þau gróðursettu nokkur tré og í nágrenni æsku­heimilis míns er elsta skógræktarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, í svokölluðu Gráhelluhrauni. Þangað var farið í berjamó,“ segir Jónatan Garðarsson.

Á síðustu árum hefur mikið verið gróðursett á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar við Hvaleyrarvatn og Kaldársel. „Á þessum slóðum lékum við krakkarnir okkur stundum á sumrin, busluðum í vatninu og sigldum á heimatilbúnum bátum. Þarna kynntumst við skógrækt og sáum hvernig landið tók stakkaskiptum á nokkrum árum. Áhuginn á trjárækt vaknaði snemma og hefur fylgt mér alla tíð. Það var svo mörgum árum seinna sem ég var kosinn í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Fyrst í stað var ég meðstjórnandi í nokkur ár en hef ég verið formaður félagsins síðastliðin átta ár,“ segir Jónatan.


 .