Þekkingarbrunnur fyrir trjáræktendur

Á þessu blíða vori flykkjast garðeigendur út til að snyrta, hlúa að gróðri og jafnvel bæta nýjum plöntum í garðinn. Þá er upplagt að sækja sér innblástur, hugmyndir og fróðleik þar sem hann er að finna. Ástæða er til að benda sérstaklega á hið forvitnilega verkefni Yndisgróður sem hrundið var af stað til að skilgreina, flokka, rannsaka og miðla upplýsingum um garða- og landslagsplöntur, þann græna efnivið sem notaður er til uppbyggingar á grænum svæðum svo sem görðum, útivistarsvæðum, skjólbeltum o.s.frv.


Yndisgróður er samstarfsverkefni Félags garðplöntuframleiðenda, Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Landbúnaðarháskóla Íslands. Það hefur notið styrks úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins og frá landbúnaðarráðuneytinu og starfar undir merkjum Northern Periphery Programme, norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins.

Ræktun og notkun garð- og landslagsplantna er vaxandi hér á landi og helst hún í hendur við aukinn áhuga á garðrækt. Ræktaður er í landinu fjöldi tegunda og yrkja, sem nær öll eru af erlendum uppruna, og með niðurfellingu tolla hefur innfluttum garðplöntum fjölgað líka síðustu árin. Allur þessi efniviður hentar misvel fyrir íslenskar aðstæður og því er brýnt að velja úr og aðgreina sérstaklega það sem reynst hefur best í ræktun hér til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur.

Ávinningur verkefnisins er fyrst og fremst bætt gæðastýring í plöntuvali og garðplöntuframleiðslu. Það skilar betri plöntum, betri árangri og minni umhirðukostnaði til hagsbóta fyrir framleiðendur, seljendur og almenning í landinu, eins og segir á vefsíðu verkefnisins, http://yndisgrodur.lbhi.is.

Þær tegundir, yrki og kvæmi plantna sem birt eru á vef Yndisgróðurs eru af meðmælalista Yndisgróðurs. Til þess að plöntur uppfylli þær kröfur að komast á meðmælalistann þurfa þær að vera harðgerðar, nytsamar og verðmætar tegundir sem góð reynsla er af í ræktun hér á landi. 

Í plöntuleit er hægt að leita að plöntum af meðmælalistanum eftir ýmsum leiðum og fá gagnlegar upplýsingar um t.d. útlit, þol og kröfur plöntunnar en einnig hvar og hvernig er best að nota hana. Sumar plöntur á listanum eru ekki í almennri framleiðslu og geta því verið sjaldgæfar á markaðnum. Í sumum tilfellum fást þær einungis á einni eða fáum gróðrastöðvum eða eru framleiddar í mjög litlu upplagi. Aðstandendur Yndisgróðurs vænta þess meðal annars að með því að hafa vænlegar plöntur á lista sínum komist þær frekar að í almennri ræktun.

Yndisgarðar

Yndisgróður vinnur að uppbyggingu klónasafna og sýningareita á nokkrum stöðum á landinu. Reitirnir kallast yndisgarðar og þeim er ætlað þríþætt hlutverk. Í fyrsta lagi að varðveita úrval íslenskra garð- og landslagsplantna til rannsókna og frekari nota, í öðru lagi að rannsaka þol þessara plantna og í þriðja lagi að vera sýningarreitir fyrir fagfólk og almenning.

Við val á stöðum er haft í huga að tilraunareitir gefi sem besta mynd af mismunandi veðurfarsskilyrðum á Íslandi og að staðirnir endurspegli mikilvæg markaðssvæði fyrir trjá- og garðplöntur.

Sumarið 2008 var gróðursett í fyrsta áfanga klónasafnsins á Reykjum í Ölfusi. Það er aðalsafn Yndisgróðurs þar sem leitast er við að planta öllum þeim tegundum sem ástæða þykir til að varðveita. Yndisgarðar á landinu eru sem hér segir:

Bergreynir - Sorbus x ambigua

Texti: Pétur Halldórsson

Heimild: http://yndisgrodur.lbhi.is

Myndir: Yndisgróður