Svo virðist sem vetrarhlýindin með smáhretum vorsins hafi ekki gert neinn alvarlegan usla í trjágróðri. Lélegustu einstaklingarnir hafa væntanlega týnt tölunni og munu ekki leika aðalhlutverk í íslenskri skógræktarsögu.

Ýmsar skemmdir eru þó að koma fram. Eitt og eitt lerkitré er grátt og ræfilslegt og þær aspir sem voru lengst komnar standa með svört blöð. Engu að síður virðist öspin koma með ný blöð og nálar lerkisins halda áfram að vaxa út. Mjög mikið nálakal er að koma fram á blágreni, hvítgreni og fjallaþin á Norðausturlandi. Svo virðist sem brum og viðarvefur sé heill þótt allar eldir nálar séu brúnar og hrynja af við minnstu snertingu. Þessi barrsviðnun á fjallaþininum er klassísk og sama mynd og birst hefur í fjallaþinstilrauninni fyrir austan og sunnan öll vor en ekki á Vöglum fyrr en nú. Trén virðast steindauð tilsýndar en að sama skapi eins og fullfrísk að nokkrum vikum liðnum þegar brumin hafa sprungið út. Í frostþolsprófuninni kom í ljós að frostþol nálanna er umtalsvert minna en í vef og brumum að vori og því má fullyrða að þetta nálakal þurfi ekki að vera varanleg skemmd enda virðast brum og vefur að vera heilt að lang mestu leyti. Engu að síður veikir þetta plönturnar og þær verða útlitsgallaðar sem jólatré næstu ár á eftir. Grenið er breytilegra þar sem bæði er um að ræða hefðbundna sviðnun yst á greinunum en líka dæmi þar sem sviðnunin er fyrst og fremst á eldri nálum en þær yngri frískari. Verulegur einstaklingsmunur er á þessari barrsviðnun og er það að sjálfsögðu góðs viti.