Páskar eru forn frjósemishátíð og var það því vel við hæfi að lerkið í fræhöllinni á Vöglum blómstraði um páskahelgina. Ákveðið var fyrir fimm árum síðan að framleiða einkum fræ af  blendingi evrópulerkis og rússalerkis sem kemur vel út í tilraunum og fengið hefur yrkisheitið Hrymur. Valdar móðurplöntur voru ágræddar á árunum 2006-2007 og voru nú að blómstra að einhverju marki í fyrsta sinn. Til að búa blendinginn til þarf að hita fræhöllina upp í um 20° svo rússalerkið og evrópulerkið blómstri nokkurn veginn samtímis og síðan að bera frjóduft á milli svo það rati rétta leið.

Blómgun var sæmileg miðað við aldur og stærð trjánna og ætti því að verða til fræ sem dugar til framleiðslu á  nokkrum þúsundum plantna, e.t.v á annan tug þúsunda, til afhendingar vorið 2012. Svo mun magnið aukast á komandi árum, en reynslan sýnir þó að búast megi við nokkrum áramun í fræframleiðslu.

Nokkrar japanslerkiplöntur valdar í Færeyjum eru í fræhöllinni, afleiðing norræns samstarfs, og blómstruðu þær nú að ráði í fyrsta sinn. Því var einnig búinn til blendingur rússalerkis og japanslerkis og verður megnið af því fræi sent til Færeyja.


 frett_0804201_2


Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóganna