Blæösp er innlend trjátegund sem finnst á sex stöðum á austanverðu landinu. Á hverjum fundarstað eru græður rótarskota frá einni upphaflegri plöntu. Villt blæösp blómstrar aldrei á Íslandi og aðeins eru þekkt tvö tilvik blómgunar á trjám í görðum undir suðurveggjum húsa. Auk þess er blæösp einkynja (hver einstaklingur með annað hvort karl- eða kvenblóm en ekki hvort tveggja) og því hefði villt blæösp hérlendis enga möguleika á að fjölga sér með fræi jafn vel þótt hún blómstraði.

Af hreinni forvitni var angi af blæösp frá Garði í Fnjóskadal pottaður og hafður inni í fræhöllinni á Vöglum til að athuga hvort hann myndi blómstra. Þar hefur hann verið í hátt í áratug og vaxið fremur hægt miðað við aðstæður. Nú um páskana bar svo við að blæöspin blómstraði myndarlegum karlblómum sem losuðu umtalsvert magn frjódufts. Þar með er staðfest að Garðsöspin er karlkyns, en ekki er vitað um kyn annarra blæaspa á Íslandi.

Þetta sýnir að hægt sé að fá blæösp til að blómstra í gróðurhúsi og jafnframt að möguleiki sé fyrir hendi að taka fleiri klóna inn, hugsanlega búa til fræplöntur af innlendri blæösp og auka þar með fjölbreytni innan stofnsins.


Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóganna