Skógasvið FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, hefur efnt til samkeppni um hönnun stuttermabola til að vekja athygli á alþjóðlegum degi skóga 2019 sem helgaður er skógum og fræðslu. Vinningstillagan verður notuð sem opinber stuttermabolur þessa dags sem er 21. mars.

Merki FAOTil að taka þátt í samkeppninni þarf einfaldlega að senda frumlega hönnun sem vísar til þema og slagorða alþjóðlegs dags skóga, „Forests and education: Learn to Love Forests“, sem útleggst á íslensku: Skógar og fræðsla: Lærið að unna skógum.

Samkeppnin er opin öllum börnum og unglingum á aldrinum 5-19 ára.

Dómnefnd velur sex bestu tillögurnar og þær verða birtar á Facebook-síðu FAO þar sem gestir síðunnar sjá um að velja bestu tillöguna.

Frestur til að skila inn tillögum er 8. febrúar 2019.

Hvernig má taka þátt í keppninni?

Til að vera með í keppninni þarf einfaldlega að taka skrefin þrjú sem hér fara á eftir:

  1. Búa til frumlega hönnun sem er lýsandi fyrir þema og slagorð alþjóðlegs dags skóga 2019 - Skógar og fræðsla: Lærið að unna skógum. Hanna má tillöguna í tölvu eða á blaði með penna, pensli, vaxlitum eða kolum, eða mála hana með olíu-, akríl- eða vatnslitum. 
  2. Útbúið rafræna mynd af tillögunni á PDF-skjali í hárri upplausn. Skjalið ætti þó ekki að vera stærra en 5 Mb.
  3. Fyllið út þátttökueyðublaðið á vef FAO og hlaðið þar upp myndinni.
Texti: Pétur Halldórsson