Lerkiblendingurinn Hrymur hefur spjarað sig mjög vel, verður ekki fyrir skemmdum að ráði, kelur lítið í æsku, fer fljótt að vaxa, er beinvaxinn og fallegur. Vöxturinn er um 30 prósentum meiri en hjá rússalerki og rúmmálsvöxtur jafnvel þrefaldur.

Morgunblaðið fjallar um kynbótastarf og frærækt Skógræktarinnar með lerkiblendingin Hrym sem er blendingur íslenskra úrvalstrjáa af rússalerki og evrópulerki. Rætt er við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra sem telst vera „faðir“ Hryms eins og það er orðað í blaðinu. Eitt þeirra trjáa sem notuð hafa verið til fræræktarinnar á Hrym er þráðbeint evrópulerkitré í Hallormsstaðaskógi sem aldrei hefur orðið fyrir skemmdum öfugt við flest evrópulerkitré önnur á Íslandi sem eru yfirleitt kræklótt vegna skemmda af haustkali.

Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður skrifar greinina og ræðir við Þröst. Greinin er á þessa leið:

Lerkiblendingurinn hrymur hefur haldið sínu striki frá því að hann fór að sýna sig í fyrstu tilraunum hér á landi fyrir tæpum 20 árum. Hann er hraðvaxta, beinvaxinn og viðarmeiri heldur en lerkitegundir sem kenndar eru við Rússland og Evrópu, en til þessara tegunda á blendingurinn ættir að rekja. Átak var gert í ræktun yrkisins fyrir um tíu árum og hefur hrymur nú verið gróðursettur um allt land, að líkindum hátt í 300 þúsund plöntur.

Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri og skógerfðafræðingur, segir verkefnið hafa byrjað árið 1993, en hann var þá verkefnisstjóri yfir lerkikynbótum hjá Skógræktinni. Elstu hrymirnir voru ræktaðir í sérstökum tilraunareitum og þeir elstu, sem eru á Höfða á Héraði og á Mógilsá, eru um það bil 20 ára.

Hefur spjarað sig vel

„Það er óhætt að segja að hrymur hafi spjarað sig mjög vel og þeir duglegustu eru sjálfsagt orðnir 11-12 metra háir,“ segir Þröstur. „Þeir hafa ekki orðið fyrir skemmdum að ráði, tréð kelur ekki mikið í æsku, fer fljótt að vaxa og er beinvaxið og fallegt. Þá verður hrymur mun síður fyrir lerkibarrfelli, sem hefur truflað rússalerki á Suðurlandi á þessu votviðrasama sumri.“

Þröstur segir að þessi kynbætti blendingur rússalerkis og evrópulerkis hafi verið vel heppnaður, en hann er fenginn með víxlun á völdum foreldrum. Kynbæturnar snúast ekki síst um val og notkun úrvalstrjáa til undaneldis og frærækt í gróðurhúsi. Mjög mikilvægt hafi verið að velja tré á Íslandi, sem hafi sýnt að þau standi sig vel við íslenskar aðstæður. Útkoman hafi verið lerkitré sem er miklu betur aðlagað íslensku loftslagi heldur en foreldrarnir.

Sver stofn og 300% viðarmeiri

Margir af elstu blendingunum hafa náð yfir tíu metra hæð og áætlar Þröstur að jafn gamalt rússalerki sé 7-8 metrar þannig að í hæðarvexti er munurinn um 30%.

„Það segir þó bara hluta sögunnar því stofninn er líka miklu sverari og hvað viðarmagn áhrærir gæti munurinn verið um 300%. Það hefur hann frá evrópulerki-foreldrinu því evrópulerki hefur tilhneigingu til að verða sverara tré meðan rússalerkið er mjóslegið,“ segir Þröstur.

Hann segir að fyrir um áratug hafi verið tekin ákvörðun um það hjá Skógræktinni að leggja áherslu á að hefja framleiðslu á blendingnum hrym frekar en hreinu rússalerki. Ágræðsla úrvalstrjáa var endurtekin og stórt gróðurhús í Vaglaskógi notað fyrir kynbæturnar, sem fela í sér að finna sífellt betri rússalerki og evrópulerki sem fræmæður. Hrymur sem framleiddur var úr seinni ágræðslunni er álitinn betri en sá sem fyrst var framleiddur.

Núna er unnið að því að auka fræmagnið með örvandi aðgerðum sem stuðla að blómgun hjá foreldrunum og spírun fræs. Mismikið af fræjum verður til árlega, en annað til þriðja hvert ár skilar sæmilegu magni af fræi. Í fyrrahaust fékkst fræ sem á að duga til að framleiða á annað hundrað þúsund plöntur. Að sögn Þrastar hefur framleiðsla síðustu ára skilað plöntum sem nú er að finna í litlum hrymslundum um allt land.

Vex vel á rýru landi

„Hrymurinn, eins og annað lerki, hefur það fram yfir flest önnur tré að hann vex tiltölulega vel á rýru landi. Á gróðursnauðu landi þarf
hrymurinn ekki að berjast í samkeppni frá öðrum gróðri. Hann fer því strax að vaxa og hefur hraðari æskuvöxt heldur en flest önnur tré.

Hrymurinn vex um 40-50 sentimetra eða meira á ári að jafnaði, sem er vel af sér vikið. Sitkagreni og fleiri tegundir geta náð þessum vexti þegar þær eru komnar vel á legg, en byrja mun hægar. Alaskaösp, sem er ræktuð í frjósömu landi vex enn hraðar þegar hún er búin að koma sér fyrir og nota kannski 5-6 ár í að berjast við grasið,“ segir Þröstur.

Hann segir enga ástæðu til annars en að ætla að viður hryms sé svipaður og hjá öðru lerki og ætti að vera góður til ýmissar notkunar.

Blendingsþróttur við víxlun

Spurður hvort ekki megi nota fræ af hrym í kynbæturnar segir Þröstur að lítið sé varið í fræ af annarri kynslóð og hrymstré gefi ekki af sér áhugavert fræ.

„Það sem þarna kemur fram kallast blendingsþróttur og verður til þegar talsvert óskyldum foreldrum er víxlað saman. Blendingsþrótturinn kemur við upphaflegu kynblöndunina og kemur fram með þessum aukna vaxtarhraða en hverfur með annarri kynslóð. Ef hrym er víxlað við annan hrym, þá erum við komin með skyldleikarækt og fáum ekki þennan blendingsþrótt heldur hið gagnstæða.

Blendingsþróttur er ekki almennur meðal trjáa, en gerist í sumum tilvikum vegna þess hvernig genin raðast saman. Það er þekkt í lerkiættkvíslinni og reyndar líka hjá öspum, en yfirleitt ekki hjá öðrum trjám.

NAFNIÐ SÓTT TIL JÖTUNSINS HRYMS Í VÖLUSPÁ

Heppni hvernig þetta þróaðist

Þröstur telst vera „faðir“ hrymsins og spurður hvort árangurinn hafi komið á óvart, segir hann að það hafi eiginlega verið „hundaheppni hvernig þetta þróaðist“.

„Hugmyndin var að reyna að bæta Rússalerkið, fá það betur aðlagað, betri vöxt og beinni tré. Þegar ég var að velja tré benti Sigurður Blöndal, skógræktarstjóri 1977-1989, mér á stakt Evrópulerkitré í Hallormsstaðarskógi. Hann fór með mig á staðinn og tréð er vissulega sérstakt að því leyti að það er þráðbeint og fallegt. Það hefur aldrei orðið fyrir skemmdum, en flest Evrópulerkitré á Íslandi eru kræklótt vegna þess að þau vaxa lengi fram eftir á haustin og verða þar af leiðandi fyrir kali.

Sigurður sagði að ég yrði að hafa þetta tré með í kynbótunum sem ég gerði. Ég tók sprota af því og græddi á Rússalerki og blómgun varð strax mikil þannig að það reyndist auðvelt að fá fræ og búa til blendinginn með víxlun við rússalerki 1996, þremur árum eftir ágræðslu. Þar með urðu fyrstu plönturnar til og blendingurinn var með í afkvæmatilraunum sem settar voru út 1999.

Strax árið 2003 var komið í ljós að Hrymur var orðinn mun stærri og meiri heldur en rússalerkitrén frá sama tíma, sem voru þó alveg ágæt,“ segir Þröstur.

Heiti blendingsins sótti Þröstur í Völuspá, en Hrymur var jötunn sem kom að austan og varði sig með skildi. Lerkið kemur einnig að austan og yrkið hefur varnir gegn óhagstæðu veðurfari Íslandi.