Sitthvað áhugavert að vanda

Nýtt tölublað tímarits Landssamtaka skógar­eigenda (LSE), Við skógareigendur, er nýkomið út. Í blaðinu er fjallað um aðal­fund og landsfund samtakanna, ýmiss kon­ar skógar­afurðir, meðhöndlun keðjusagar, grisjun og margt fleira.

Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri LSE, skrifar pistil í blaðið og ræðir breyt­ingar á starfseminni í kjölfar sam­einingar skógræktarstofnana í nýja stofnun, Skóg­ræktina. Skógarbændur telji mikilvægt að geta áfram tekið þátt í ýmsum ákvörðunum um skógræktarmál. Hrönn skrifar einnig grein um íslenska jólatréð þar sem hún nefnir m.a. samstarf LSE við Austurbrú um ræktun og markaðssetningu stafafuru sem jólatrés.

Efni blaðsins tekur annars mið af árstímanum og starfi LSE. Aðalfundur samtakanna var haldinn á Egilsstöðum í byrj­un október. Útdrátt úr fundargerð aðalfundarins og samþykktar tillögur er að finna í blaðinu auk efnis frá málþingi sem haldið var í tengslum við fundinn. Einnig má finna í blaðinu ábendingar um jólaskraut úr skóginum, umhirðu skógarins að vetri og grein um nýja stofnun, Skógræktina, auk fleiri áhugaverðra greina.

Blaðinu er dreift til allra póstfanga í dreifbýli á landinu auk skógarbænda og segir Lilja Magnúsdóttir í ritstjóraspjalli að það sé von þeirra sem standa að útgáfu blaðsins að efni þess veki áhuga fleiri á að gerast skógarbændur.

Texti: Pétur Halldórsson