1. mynd. Marga galla í jólatrjám er hægt að laga með klippum, vír eða plastspelkum
1. mynd. Marga galla í jólatrjám er hægt að laga með klippum, vír eða plastspelkum

Móta má vaxtarlag stafafuru með brumbroti

Sumarfundur samtaka jólatrjáaræktenda í Evrópu, Christmas Tree Grower Coun­cil Europe (CTGCE), var haldinn dag­ana 13.-16. júní í Saulieu í Frakklandi, um 250 km sunnan Parísarborgar. Um 190 manns frá ólíkum löndum tóku þátt í fundinum, þar af tveir frá Íslandi. Ýmsar ræktunaraðferðir voru kynntar, tegunda­notk­un, vélar o.fl. Helstu verkefni júní­mán­að­ar hjá jólatrjáa­bænd­um eru að huga að vaxtarlagi furutrjáa og áburðargjöf ef hressa þarf upp á lit trjánna.

Else Møller, skógfræðingur og skógar­bóndi Vopnafirði, var annar fulltrúa Íslands á fundinum í Saulieu. Hún segir að fróðlegt hafi verið að skoða stóra sýningu sem haldin var í tengslum við fundinn. Þar mátti sjá og fræðast um ýmislegt sem tengdist jólatrjáaræktun, meðal annars fræ, plöntur, búnað, nýja tækni og vélar auk þess sem smakka mátti og kaupa alls kyns góðgæti. Else segir að sýningunni svipi til þeirrar dönsku sem haldin er á Langesø á Fjóni þriðja fimmtudag í ágúst ár hvert.

Þess utan var farið í vínsmökkun hjá einum helsta vínframleiðanda á Bourgogne-svæðinu og skoðað svæðið í kringum Saulieu. Það er mjög skóglent, grænt og fallegt en var óvenjulega blautt þegar jólatrjáaræktendur fóru þar um enda mikið rignt í Frakklandi síðustu vikur með flóðum víða eins og sagt hefur verið frá í fréttum.

Sumarfundur CTGCE 2017 verður haldin á Bretlandi og er öllum opinn.

Júníverk jólatrjáabænda

Nú er allt komið á fullt og trén grænka, hækka og gildna. Þá er rétti tíminnn til að fara um jólatrjáagróðursetningar og skoða trén. Munið að hafa klippurnar meðferðis ásamt vír eða plastspelkum til að laga galla á trjánum (1. mynd).

Brumbrot er aðferð sem hægt er að beita til að þétta furutré og gera þau bústnari. Ef brumin á hliðargreinum efsta greinakrans trésins eru brotin af (um 1/3) verður tréð þéttara á næstu árum (2. mynd). Ef brumin er brotin á öllum hliðagreinum trésins verður vaxtarlag þess mjórra (3. mynd).

Stafafura var fjórða mest gróðursetta trjátegundin á Íslandi á tímabilinu 2004-2013 (Skógræktarritið 2014, 1. tbl.). Þetta er líka vinsæl tegund sem jólatré og mest selda íslenska jólatréð, í fyrsta sæti frá árinu 2005. Árið 2013 seldust 4.892 stafafurur sem jólatré og í öðru sæti kom rauðgreni. Af þeirri tegund seldust 1.388 tré (Skógræktarritið 2014 2. tbl.). Stafafura vex hratt og örugglega við góð vaxtarskilyrði en hefur tilhneigingu til að verða of gisin til að nýtast sem jólatré. Þess vegna getur verið skynsamlegt að brjóta af henni brum snemmsumars. Það er kallað brumbrot.





Mótun trjánna með brumbroti

Stýra má vaxtarlagi stafafuru með því að brjóta nýju brumin sem þegar eru farin að lengjast í júnímánuði. Mælt er með því að brjóta um tvo þriðju af hverju brumi á efsta greinakransi trésins (4. mynd). Á hliðargreinum er brotið af aðalbrumunum á greinaendum til að tréð verði mjóslegnara og þéttara (5. mynd).

Best og fljótlegast er að vera með hanska og brjóta brumið með höndunum.

Þó er gott að vera líka með handklippur í vasanum til grípa til ef laga þarf tvítoppa, sníða af greinar sem vaxa út í loftið og óæskilegan gróður sem getur skemmt trén.

Hvenær á að brjóta brum?



Brumbrot á að fara fram frá byrjun júní og fram að Jónsmessu. Ef vorið er kalt getur þessu seinkað eitthvað. Með því að brjóta brum er hægt að þétta trén og jafnvel hægja nokkuð á toppvextinum.


Áburðargjöf

Til greina getur komið að bera á stafafuru snemmsumars ef tréð er gulgrænt á litinn eða brunnið eftir veturinn. Þá er best að nota niturríkan áburð því yfirleitt stafar guli liturinn af niturskorti í jarðveginum. Ef tréð er frísklegt og grænt er óþarfi að gefa því áburð enda eykur áburðargjöfin líkurnar á of miklum toppvexti.

Enn er hægt að gefa trjánum áburð þótt komið sé fram í júní, sérstaklega þau tré sem meiningin er að höggva þetta árið. Varast skal þó að bera á ung tré seinna en í júní því það getur leitt til þess að trén myndi síðvöxt sem er mjög viðkvæmur fyrir ótímabæru frosti snemma á haustin.

Magn áburðar fer eftir jarðvegsgerð. Ef plöntur eru gróðursettar í rýrum jarðvegi er mælt með áburðargjöf við gróðursetningu og síðan árlega fyrstu árin þangað til trén eru komin í góðan vöxt. Hægt er að bera á tvisvar og skipta heildarskammtinum í tvennt.

  • 0-4 ára: 15 g af áburði (1 mælisk.) með litlu köfnunarefni en miklum fosfór
  • 5-7 ára: 30 g af áburði (2 mælisk.)
  • 7- 12 ára: 50 g af áburði (3-4 mælisk.)
  • Síðasta sumarið: Áburður ríkur af köfnunarefni og magnesíum til að örva græna litinn

Hér eru dæmi um áburð sem Áburðarverksmiðjan selur og hentar vel til jólatrjáaræktunar:

  • Fjölgræðir 5 (17N-15P-12K) er gott að bera á fyrstu árin.
  • Fjölgræði 7 (22N-14P-9K) er gott að nota þegar trén eru komin í góðan vöxt.
  • Fjölmóða (25N-5P) er gott að bera á síðasta árið en hér vantar magnesíum.
  • Blákorn (12N-5P-13K og 1,2Mg) er ágætur en hefur frekar lágt innihald af N fyrir stór tré
  • Nánari upplýsingar

Hjá Búvís er hægt að fá Völl (23N-5P+S+2Mg+Ca+Se) sem er mjög góður fyrir tré sem eru að verða tilbúin til lokahöggs.

Skordýr

Skordýr eru sívaxandi vandamál í jólatrjáaræktun erlendis en hafa ekki enn verið til verulegs ama á Íslandi. Á Suðurlandi hefur ertuygla þó gert vart við sig undanfarin ár og étið barr á barrtrjám á nokkrum stöðum. Hægt er að eitra með Permethrin ef þess gerist þörf en það er kostnaðarsamt, mikil vinna og þar fyrir utan eru umhverfisáhrif þess umdeild.

Rautt barr á furu sést víða og má oft tengja við óhagstætt veður. Oftast ná trén sér smám saman af slíkum áföllum. Rautt barr getur þó líka verið vegna sveppasjúkdóma eins og furufleiðurs.

Lesefni

Lesa má meira um skaðvalda í jólatrjám í bókinni „Heilbrigði trjágróðurs - Skaðvaldar og varnir gegn þeim“ eftir Guðmund Halldórsson og Halldór Sverrisson (2014). Á vefsíðu Norsk Juletre er hægt að kaupa nýja bók á norsku um skaðvalda í jólatrjáaræktun: „Skader i juletrefelt – biotiske og abiotiske årsaker” eftir Venche Talgø og Inger Sundheim Fløistad (2015).