Mynd frá Vistvangi tekin 9. október í haust. Stóra-Eldborg í baksýn, Geitahlíð til vinstri þar sem á…
Mynd frá Vistvangi tekin 9. október í haust. Stóra-Eldborg í baksýn, Geitahlíð til vinstri þar sem áður óx lundurinn Paradís. Næst á myndinni sést tað sem dreift var 2017, um miðja mynd er gróðurþekja sem lögð voru drög að á upphafsárinu 2016 og fjær sjást taðhaugar sem koma til dreifingar árið 2018. Mynd: Vistvangur.

Vistvangur – lífgun á örfoka landi

Samtökin Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs hafa hrundið af stað verkefni sem kallast Vistvangur í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ, Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og fleiri hafnfirsk félög og stofnanir. Markmið Vistvangs er að klæða örfoka svæði í Krýsuvíkurlandi gróðri.

Þeir Björn Guðbrandur Jónsson, framkvæmdastjóri Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs, og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, skrifa grein um verkefnið í Fréttablaðið í dag. Þar rekja þeir hörmungasögu gróðurfars í landi Krýsuvíkur sem varð ofbeit að bráð í lok nítjándu aldar og hefur ekki náð sér síðan. Örnefni vitna um horfna grósku, til dæmis örnefnið Paradís á lundi sem stóð undir Geitahlíð en er nú horfinn.

Við uppgræðsluna verður lögð áhersla á að nota hrossatað og önnur lífræn efni til að færa landinu líf, eins og þeir félagarnir orða það. Gróðursettar verða trjáplöntur og hófst það starf í apríl 2016 þegar nemendur úr Flensborgarskóla settu niður fyrstu trén. Svæðið er stórt, um 300 hektarar, og er ætlunin að nýta það sem útikennslusvæði og rannsóknarvettvang fyrir skólafólk. Í greininni biðla þeir Björn Guðbrandur og Jónatan til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að taka þátt í þessu starfi.

Grein þeirra birtist í lengri gerð á vefnum visir.is en stytt í Fréttablaðinu. Hér er lengri gerðin: