Skógardagurinn mikli, árleg skógarhátíð Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra, Héraðs- og Austurlandsskóga, Skógræktarfélags Austurlands og Skógræktar ríkisins, var haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri í 9. sinn í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi um helgina.

Komið í mark í Skógarhlaupinu.Skógardagsgestir smakka á heilgrilluðu nauti.Skátarnir buðu upp á að grilla brauð yfir eldi.Dagurinn hófst á hinu árlega Skógarhlaupi þar sem hlaupin er 14 km leið um skóginn. Sigurvegari í karlaflokki var Jón Jónsson á tímanum 1 klst. og 6 mín. Í öðru sæti var Bogi Ragnarsson og í því þriðja varð Hafliði Sævarsson. Í kvennaflokki sigraði Brynja Baldursdóttir á tímanum 1 klst. og 19 mínútur. Í öðru sæti varð Linda María Karlsdóttir og í þriðja varð Brynhildur Sigurðardóttir.

Eftir hádegi hófst hin formlega skemmtidagskrá. Meðal atriða má nefna töframanninn Ingó, karlakórinn Drífandi og atriði úr Kardemommubænum. Einnig fór fram Íslandsmeistarakeppnin í skógarhöggi og sigurvegari var Ingvar Örn Arnarson frá Skógrækt ríkisins á Suðurlandi. Í öðru sæti varð Bjarki Sigurðsson frá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað og Jón Björgvin Vernharðsson sem keppti fyrir hönd skógarbænda varð þriðji.

Boðið var upp á heilgrillað naut, pylsur, ketilkaffi, lummur og fleira góðgæti. Áætlað er að tæplega tvö þúsund gestir hafi heimsótt Hallormsstaðaskóg á Skógardaginn mikla.

Texti og myndir: Esther Ösp Gunnarsdóttir