Þessa skemmtilegu mynd tók Jónas Reynir Helgason ofan í kyndil sem brann úti við á Vöglum.
Þessa skemmtilegu mynd tók Jónas Reynir Helgason ofan í kyndil sem brann úti við á Vöglum.

Hátt í 400 manns sóttu markaðinn í fallegu vetrarveðri

Jólamarkaður var haldinn í fysta sinn á laugardaginn var í starfstöð Skógræktar ríkisins á Vöglum í Fnjóskadal. Handverksfólki í Þingeyjarsveit var boðið að setja upp söluborð og sóttu ellefu um pláss.

Söluvörurnar voru af ýmsum toga, marmelaði, grasöl, leikfangabílar úr tré, jólakort, heimabakstur, reyktur silungur, list- og skrautmunir svo eitthvað sé nefnt. Einnig seldi Skógrækt ríkisins varning úr skóginum, eldivið, köngla, platta, flettiefni, kertastjaka, kyndla og að sjálfsögðu jólatré, greinar og skreytingaefni. Haft var á orði að þarna hefði fólk getað fengið allt til jólanna á einum stað.

Aðsókn að markaðnum var framar öllum vonum og komu hátt í 400 manns í Vaglaskóg þennan dag í frábæru vetrarveðri. Rúnar Ísleifsson skógarvörður telur líklegt að þessi viðburður verði árlegur í skóginum héðan af enda greinilega kærkomin viðbót í jólaundirbúningnum.

Nemendur af unglingastigi Stórutjarnaskóla seldu veitingar á markaðnum til fjáröflunar fyrir ferðasjóð sinn. Gestir á markaðnum voru flestir úr nágrannahéruðum en einnig kom fólk úr Eyjafirði og lengra að enda alltaf gaman að koma í Vaglaskóg, hver sem árstíðin er.

Meðfylgjandi eru myndir sem fið fengum sendar frá markaðsdeginum. Þær tóku Helen Jónsdóttir, Hörður Jónasson Sigrún Jónsdóttir og Jónas Reynir Helgason.

Fallegt borðtré, plattar og fleira fallegt var til sölu á borði Skógræktar ríkisins.
Rúnar Ísleifsson og Valgerður Jónsdóttir við söluna. Mynd: Hörður Jónasson.

Betra var að vera vel klæddur úti við þennan dag en fallegur var hann.
Mynd: Sigrún Jónsdóttir.

Frosthrímið á trjánum myndaði skemmtilega andstæðu við sólarglætuna
sem sýnir sig stuttan dagpart um þessar mundir. Mynd: Jónas Reynir Helgason.

Raki úr loftinu hlóðst á trén í Fnjóskadal í frostinu sem fór vel niður fyrir tíu stig
laugardaginn 12. desember. Mynd: Jónas Reynir Helgason.

Texti: Pétur Halldórsson