Fallegt sitkagreni varð fyrir valinu og prýðir salinn í Vatnsendaskóla fram yfir jólin. Mynd: Sigurv…
Fallegt sitkagreni varð fyrir valinu og prýðir salinn í Vatnsendaskóla fram yfir jólin. Mynd: Sigurveig Hermannsdóttir.

Annar bekkur sótti jólatré fyrir skólann

Nemendur úr öðrum bekk í Vatnsendaskóla komu í aðventuheimsókn á Mógilsá í gær, 9. desember. Þetta var stór hópur, rétt um 70 nemendur og gleðin skein af börnunum að fá að vera úti heilan skóladag. Að sögn kennaranna helgast stærð árgangsins af því að við efnahagshrunið á íslandi árið 2008 tóku Íslendingar því upp á því að eignast fleiri börn. Því má segja að þessi myndarlegi hópur sem naut sín í skóginum á Mógilsá sé jákvæð afleiðing efnahagshrunsins.

Vel var tekið á móti hópnum á Mógilsá eins og nærri má geta. Farið var í skógargöngu og rætt um náttúruna, trén og allt þar á milli. Kveiktur var varðeldur að skógarmanna sið með eldiviði úr skóginum og grillaðar pylsur yfir opnum eldinum. Það féll vel í kramið hjá svöngum börnum eftir langa göngu um skóginn. Nemendur sem og kennarar fóru svo ánægðir heim með sérvalið jólatré fyrir skólann sem væntanlega verður hlaðið heimatilbúnu jólaskrauti á næstu dögum.

Heimsóknir sem þessar eru liður í starfi Skógræktar ríkisins til að efla vitund komandi kynslóða um hvað skógar gefa okkur og hvernig má nýta þessa náttúruauðlind, þó ekki sé nema til hressandi útivistar. Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir sem teknar voru í þessari skemmtilegu heimsókn.

Bjarki Þór Kjartansson, landfræðingur á Mógilsá, hjálpaði börnunum að finna þetta
fallega tré og leiðbeindi við sögunina. Mynd: Sigurveig Hermannsdóttir.
Stoltir krakkar með fallegt jólatré fyrir skólann sinn. Mynd: Sigurveig Hermannsdóttir. Eftir vel heppnaða skógarverð er við hæfi að kveiktur sé eldur og boðið upp á
heitt góðgæti. Mynd: Sigurveig Hermannsdóttir.

Vel viðraði til útvistar í skóginum á Mógilsá og aspirnar skýldu vel fyrir þeim litla vindi
sem blés. Mynd: Bjarki Þór Kjartansson.

Texti: Bjarki Þór Kjartansson og Pétur Halldórsson